Bloggfærslur mánaðarins, desember 2008

Óratoría

Gleðilega hátíð!

Ég átti dásamleg jól sem voru mjög friðsæl og afslappandi og full af gómsætum, vigtuðum og mældum máltíðum, upp úr standa humar og mega meyrar rjúpur - NAMM. Mér finnst jól í fráhaldi svo miklu betri en ofátsjól, það fylgir þeim nefnilega ekkert samviskubit... alveg magnað. 

Þetta eru svolítið skrítnir tímar hjá mér núna... Fyrir jól hugsaði ég alltaf "fyrst koma jólin og svo kemur krakkinn" og nú eru jólin komin sem þýðir að krakkinn er næstur. Vona reyndar að áramótin komi fyrst og þegar ég pæli í þessu þá finnst mér ég svo ekkert tilbúin til að verða tveggja barna móðir, ég skil ekki hvernig fólk fer að þessu og finnst eins og ég sé að gera þetta í fyrsta skipti.

Þessa dagana er ég samt í afslöppun og læt karlinn um að stressa sig á to-do listum, hverju á að pakka í fæðingartöskuna, hvað á að gefa mér að borða í sængurlegunni og svo framvegis. Þessi dásamlegi maður ætlar nefnilega að sjá um allt nema rembinginn held ég. Veit ekki hvað ég gerði til að eiga svona yndislegan mann skilið en er endalaust þakklát fyrir hann. 

Tíkin sem við erum búin að vera að passa yfir jólin tekur hlutverk sitt sem sérlegan verndara minn mjög alvarlega. Hún vill helst ekki að ég fari ein á klósettið og það fyrsta sem hún gerir þegar hún kemur inn er að athuga hvar ég er. Svolítið fyndið í ljósi þess að kallinn hugsar miklu meira um hana, fer með hana út og gefur henni að borða, maður hefði haldið að hann yrði aðalgaurinn en nei, hún passar kerlinguna sína. Alveg öfugt við hana Læku gömlu sem var miklu hrifnari af körlum en konum. 

Já svo kíktum við í jólakúluna á aðfangadag. Annað hvort höfum við ljósan mislesið bumbuna svona rosalega eða litli pungur snúið sér akkúrat þarna um kvöldið eftir skötuna. Hvort sem það var þá sneri hausinn í rétta átt, allt var á réttum stað og vinstra nýrað sem hafði verið svolítið útvíkkað (sem bendir til bakflæðis) var komið í eðlilega stærð sem voru frábærar fréttir að fá á aðfangadag (og reyndar alla daga). 

Gamlárskvöld stefnir í rólegheit og hamborgarhrygg bara við þrjú (plús kúlan). Þetta voru fyrstu jólin mín í Reykjavík svo ég muni (gæti hafa verið hér þegar ég var lítil) og þetta verða fyrstu áramótin sem ég verð án foreldra minna. Er maður að verða fullorðinn eða hvað?


Ólykt og jólalykt

Það er ekki lítið lagt á skynfæri óléttrar konur. Þau eru einstaklega næm eins og allir vita og í kvöld var reynt á þau til fullnustu. Rétt rúmlega 65 fermetra íbúðinni var breytt í vettvang fyrir heljarinnar skötuveislu og verandi sveitavargurinn sem ég er valdi ég þessa kasúldnustu þegar ég var að versla inn fyrir veisluna. Hafði sem betur fer vit á því að loka inn í svefnherbergin. Rétt áður en við byrjuðum að sjóða skötuna sprautaði kallinn á sig einhverjum rakspíra sem ég ekki fílaði og nú, þegar allt er afstaðið er ég laus við skötufýluna en til þess þarf maður að sjóða hangikjöt og ég er kafna úr hangikjötslykt.

Mér finnst skata æði og hangikjöt æði (og kallinn æði) en öll þessi lykt er alveg búin að gera mig ringlaða og ég er bara orðin þreytt í skilningarvitunum. Á morgun verður bara góð lykt og er tilbúin fyrir jólin. Á eftir að pakka inn einni gjöf, skipta um á rúmunum og fara í jólabað... svo held ég að þetta gerist bara.  Jólin koma og myndu koma jafnvel þótt ég sleppti þessu, það er bara eitthvað við bað og hrein rúmföt... sæluhrollur!

Á morgun verður kíkt í fleira en jólapakka. Litli pungur liggur eins og kjáni í bumbunni og við fáum aukasónar til að líta aðeins á hann og sjá hvernig þetta snýr allt saman. Ég var búin að spá því fyrir sjálfri mér að hann kæmi í heiminn á morgun... ég vona reyndar ekki!

Yfir jólin verðum við líka með frábæran shcaeffer í láni sem heitir Bekka og hefur bæði fengið þjálfun í að leita að fíkniefnum og fólki þótt hún starfi reyndar við hvorugt í dag. En það er ljóst að við hjónaleysin náum ekki að tapa okkur um jólin ef hundurinn fær einhverju að ráða. 

Gleðileg jól!


Óp um miðja nótt

Kýldur í magann!!!

Man einhver eftir þessum "skets" í fóstbræðrum. Well ég fékk að upplifa þetta í nótt. Lá í þægilegri stellingu í rúminu, var rétt að detta inn í draumalandið þegar litli karl ákveður að hann snúi eitthvað vitlaust (hann er sko ekki í höfuðstöðu og ég held að hann hafi akkúrat fattað það í nótt). Hann varð náttúrulega að gera eitthvað í málinu sem endaði með því að móðir hans fékk þrjú ef ekki fjögur bylmingshögg í magann alltaf rétt í þann mund sem hún var að sofna.

Greyjið kallinum dauðbrá auðvitað því ég æpti og emjaði upp úr hálfsvefninum í öll skiptin. Sem er reyndar ótrúlega fyndið núna eftir á. Ég man ekki eftir því að dóttirin hafi nokkurn tíma pyntað mig svona eins og þessi gerir. Jú hún lét náttúrulega bíða eftir sér frekar lengi og hennar vegna var ég skorin á hol en boy oh boy .. þessi er með kick-box múvin og "the cold sholder" algjörlega á hreinu. Ég er farin að kvíða því að hitta hann, augljóst að ég get ekki einu sinni haft hemil á honum þegar hann er inni í mér sem lofar ekki góðu upp á framhaldið.

Jafn leiðinlegt og mér finnst að bíða þá nýt ég þess samt að vera ólétt. Þetta er drulluerfitt en samt eitthvað svo kósý. Nú er ég t.d. að gæla við það að láta drenginn detta í næsta stjörnumerki ef ég fæ einhverju að ráða um fæðingardaginn. Það kann ekki góðri lukku að stýra að vera með þrjár þverar steingeitur hér á heimilinu, greyjið fiskurinn verður að plokkara bara. Hvenær byrjar annars vatnsberinn?

 


Ósvífna konan

Ég ætla að játa að ég er ósvífin. Um daginn þegar ég skrapp í Nóatún í hádeginu til að kaupa pepperóní voru bara tveir kassar opnir og geðveik röð á þeim báðum. Í þann mund sem ég tók mér stöðu í aftast annarri röðinni opnaði þriðji kassinn og þar sem líklegur kandídat í hann var gamall maður með fulla körfu af drasli þá "stökk" ég af stað og fékk afgreiðslu fyrst. Ungi maðurinn sem hafði staðið fyrir framan mig í löngu röðinni fór að tuða, sagði eitthvað um dónaskap og frekju og að einhverjir aðrir hefðu átt að fá að fara á undan (augljóslega maður sem hélt að til væru óskrifuð búðakassalög) og lét í ljós réttláta reiði sína (fyrir að hafa ekki sjálfur verið svona snöggur). Hann var samt ekki að tala við mig heldur fólkið fyrir framan sig og ég lét eins og ég heyrði ekki í honum (veit hann ekki hver ég er?), borgaði mitt pepperóní og gekk (les. kjagaði) í burtu. Tuðið í kallinum hins vegar varð til þess að enginn þorði á nýja kassann (þótt öllum langaði og hann mest af öllum) og afgreiðslukonan þurfti að ítreka "þessi kassi er opinn".

Ég var ósvífin. Auðvitað ættu að vera til einhvers konar óskrifuð búðakassalög, ég hef sjálf oft hugsað þetta þegar ég er kannski nr. 3 í langri röð og nýr kassi opnar. Þeir sem koma síðastir þurfa þá ekki að bíða neitt á meðan ég er búin að húka í röð heillengi, hvar er réttlætið í því? Skil manngreyið sem tuðaði mjög vel, þ.e.a.s. hans sjónarmið ekki tuðið, því ég hef oft verið í hans sporum og þá jafnvel framar í röðinni. Ég veit að ég ætti að skammast mín og sjá eftir því að hafa troðist svona en ég er of ósvífin til þess í augnablikinu, ég ætla að spila út hormónaspilinu á þetta bara, ég er ekkert búin að nota það svo mikið á þessari meðgöngu.

Biblían segir líka "þeir síðustu munu verða fyrstir" - ætli þeir hafi verið að meina þetta? Við eigum kannski bara að halda ró okkar í röðinni vitandi það að röðin kemur að okkur á endanum?

 mban2129l

 

 


Ósvífni eða heimska?

 

- Einkaleifastofa góðan dag. 

- Já hæ - ég ætla að sækja um einkaleyfi á rittákninu Ó.

- Ekkert mál. Gjössovel. Þetta er einmitt mikið í tísku í dag.

 

----

Næsta símtal

----

- Og Vodafone góðan dag.

- Já hæ - þið skuldið mér fullt af peningum. Ég á nefnilega einkarétt á rittákninu Ó og þið notið O í logoinu ykkar sem verður að viðurkennast að er ansi líkt Ó og þess vegna um kláran þjófnað að ræða. 

----

Næsta símtal

----

- Skrifstofa Forseta Íslands

- Já hæ - ég er að hringja til að rukka ykkur fyrir notkun á rittákninu Ó. Ég á nefnilega einkaleyfi á því og mér skilst að þið séuð að nota það í nafnið á Forsetanum. Ég vil því rukka fyrir t.d. alla þessa ólöglegu notkun á bréfsefnum og opinberum skjölum osfrv og svo vil ég að þið sækið um sérstakt leyfi til þess að nota táknið í framtíðinni. Og það þýðir ekkert að nota O í staðinn, það er svo líkt að einkaleyfið mitt nær líka yfir það. 

----

Enn eitt símtal afþví að hin tvö gengu svo vel

---

- Einkaleyfastofa góðan dag

- Já hæ - ég er með einkaleyfi á rittákninu Ó og mér datt í hug að bæta fleiru við. Ég vil t.d. fá einkaleyfi á þremur upphrópunarmerkjum í röð (!!!) orðinu "sko" og orða samsetningunni "punktur is".

----

Hvernig er hægt að fá einkaleyfi á einhverju jafn kjánalegu og samröðun tákna? Ég get skilið að enginn mætti nefna fyrirtækið sitt þessu ef hann frátekur þetta með einhverjum löglegum hætti en að ætla að rukka fyrir notkun táknarununnar er fráleitt. Svona svipað og ef SS ætlaði að banna eða rukka fyrir allar auglýsingar þar sem tvö ess kæmu fyrir. 

Hvernig er líka hægt að taka eitthvað sem einhverjir tölvunördar "fundu upp" fyrir 30 árum síðan og fá einkaleyfi á því. En kannski er allt hægt í Rússlandi ef maður á monní? 

 


mbl.is Segist eiga réttinn á ;-)
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Óteljandi gömul

Ég græddi heilt ár í gær. Ég er búin að halda því fram í nokkurn tíma að ég sé 28 ára og sagði svo við vinkonur mínar í gær "erum við að ræða það að ég sé að verða 29 ára á næsta ári". Þær hugsuðu málið svolitla stund en spurðu svo "bíddu ertu ekki fædd 81? ... þá verðuru 28 ára á næsta ári."

og þannig fór ég að því að græða heilt ár á einum degi. Segið svo að það sé kreppa í þjóðfélaginu, er ekki tími=peningar ;) Ég get því farið áhyggjulaus í langt barneignaleyfi vitandi það að ég verð ekki næstum orðin þrítug þegar ég sný aftur á vinnumarkaðinn. Og ég hef auka ár til að plana brjálaðan fögnuð á 29 ára afmælinu mínu. Því verður fagnað með stæl því eins og allir vita þá er 29 árið sem konur hætta að eldast og verða 29 for ever. 

Það er annars af mér og famelíunni að frétta að við munum fá þurrkara inn á heimilið á mánudaginn. Snemmbúin jólagjöf frá foreldrum og tengdaforeldrum og á að giska bráðnauðsynlegur gripur fyrir 4 manna fjölskyldu sem ekki hefur mikið pláss eða almennilegar snúrur. Höfum komist upp með ýmislegt í þvottamálum fram að þessu en nú er tími afsakananna liðinn. Svona eins og þegar ég eignaðist loksins uppþvottavélina mína. Draumatæki lífs míns og ég hugsa enn til elsku vina minna sem hjálpuðu mér að láta þennan draum rætast þegar ég raða í hana (ég breytti ss. 25 ára afmælinu mínu í fjáröflun fyrir þessari elsku).

Og afþví að við erum að tala um afmæli þá eru yfirgnæfandi líkur á því að ég verði a) algjörlega á steypinum á næsta afmælisdaginn minn, b) á sjúkrahúsi eða c) með nýfætt barn í fanginu þá held ég að mér sé óhætt að fullyrða að það verði ekki haldið upp það þetta ár. Og nú er það allt í lagi því ég er bara 28 ára en ekki 29 eins og ég er búin að halda svo lengi. 

old-lady-smoking-cigar


Hér er ég, hér er ég

Marilyn
Marilyn
... bara allt fínt, en þú?

Apríl 2024

S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband