Færsluflokkur: Lífstíll

Let´s talk about God baby

Við dóttir mín vorum að tala saman um himnaríki í gærkvöldi og ég bað hana að nefna þrjú atriði sem hún héldi að væru þar.

"mmm það er Guð, Jesú og .......... Rut"

"Rut? hver er Rut?"

"Rut í laginu um Daníel og Rut"

Þá spurði ég hana hvað hún héldi að fólk gerði á himnaríki.

"allir setja vatn í skálar á hausinn á sér og labba með það"

"afhverju?"

"afþví að það eru allir svo fátækir"

Litla skottið mitt tekur þessu með að Guð verndi fátæka fólkið svolítið bókstaflega og er greinilega búin að sjá slatta af myndum frá Afríku. Hún vildi ekki heyra á það minnst að á himnaríki væri engin fátækt, ekkert hungur, engin veikindi og enginn þorsti.


Ég er bara góð

Já ég er bara góð.

Átti über-rólega helgi og tók svolítið Friends-maraþon svona í tilefni þess að ég var barnlaus og engin aðkallandi verkefni að valda mér samviskubiti. Held að ég hafi ekki horft jafn samviskulaust á sjónvarpið í mörg ár!

Nú er stelputrippið mitt komið heim aftur og það er gjörsamlega geðsýki að gera í vinnunni svo það er víst best að haska sér í háttinn.

Það gerist ekkert svo spennandi í mínu lífi þessa dagana að vert sé að blogga um það sérstaklega. Ég nýt þess bara að vera til, fór t.d. á yndislegan fund í gær, átti yndislegt spjall við Buddu Crying og mér líður bara yndislega. Það er reyndar mjög spennandi dæmi - lífið mitt var ekki yndislegt fyrir rúmu 1 1/2 ári síðan en samt var umgjörðin frekar svipuð. En ég hef öðlast lífsfyllingu í prógramminu og ef mér væri boðin lyfjameðferð sem tæki frá mér matarfíknina að fullu og öllu þá er ég ekki viss um að ég myndi þyggja því hvaðan ætti þá lífsfyllingin mín að koma? 


Og verðlaunin eru ...

Helga Dóra giskaði rétt (þó hún hafi reyndar frekjast til að giska tvisvar) í óformlegu fyrirsagnagetrauninni. "Jarmandi snilld" verður að öllu líkindum nafnið á einum þættinum í næsta Gestgjafa. Í verðlaun eru eintak af téðum Gestgjafa ef HD kærir sig um.

Enn eitt næturbloggið að enda komið - hvað er málið í alvöru? 


Næturblogg

Ætli það sé einhver ástæða fyrir því að ég er alltaf að senda inn blogg seint á kvöldin - eða jafnvel á nóttunni eins og núna.

Eyddi kvöldinu í að pikka upp eitt lag á gítar - já 3-4 tímar bara í eitt lag, kannski af því að ég kann ekki á gítar. Tók bara upp gítarbók, setti diskinn í spilarann og hermdi eftir líklegum hljómum úr bókinni. Ég náði tveimur hljómum og bjó hina tvo til, þeir passa svo mér er sama þó þér séu hluti úr stærri gripum sem klunnaputtarnir mínir ná ekki að grípa yfir eða séu jafnvel ekki til í neinni gítargripabók. Það vill þó svo kaldhæðnislega til að lagið heitir Chocolate (eftir Heru) og fjallar um það hvernig súkkulaði gerir lífið betra. Í huganum skipti ég auðvitað chocolate út fyrir fráhaldið en þetta er samt allt í lagi - mér fannst súkkulaði ekkert best af öllu þegar ég var í ofáti - ef lagið héti Ice cream eða rjómi þá mætti kannski hafa áhyggjur af mér. En nú er ég orðin rosalega aum í fingurgómum vinstri handar.

Ég ætla að drífa mig í rúmið en ég verð að kasta einkarétti mínum yfir brandara sem ég sagði í dag. Við fáum alltaf DV í vinnunni (naturally) og á forsíðunni er hinn ástríki Selfossprestur undir fyrirsögninni "Klerkur í klípu" - Fyrirsagnasmiðurinn mikli var auðvitað ekki lengi að umsnúa því í "klerkurinn klípur" - sem var auðvitað það sem startaði þessu öllu saman (meint brot - ég veit).

Fleiri fyrirsagnir sem ég samdi í dag, reyndar fyrir Gestgjafann, (en voru þó ekki allar notaðar):

Meme í matinn

Grillmatur fyrir gemlingana 

Jarmandi snilld 

Djúsí beljur beint á grillið

Lömbin þagna

Fiskur á þurru landi

Þeir fiska sem grilla 

Svínslega gott

Svínað á grillið

Það er sko ekki leiðinlegt í vinnunni minni á föstudögum, þá er "flippað með fyrirsagnirnar". Ein af þessum fyrirsögnum verður reyndar notuð. Megið giska á hver þeirra það er.

 


Frekja

Ég er svo skondin skrúfa. Rétt áður en ég steig á vigtina í fyrsta skipti eftir að ég byrjaði í fráhaldi hugsaði ég "ef það verða ekki farin a.m.k. 4 kíló þá hætti ég" og þá var eins og "einhver" bankaði í hausinn á mér og segði "og gerir hvað Guðrún?" - og það er nákvæmlega málið, hvað á ég að gera ef ég er ekki í fráhaldi?

want_vs_shouldEngin af mínum aðferðum hafði virkað fram að þessu - en þó ég myndi ekki léttast um gramm var þessi fyrsti mánuður ótrúlega mikil lausn frá átinu (og by the way ég held ég hafi lést um 5 kg í fyrstu vigtuninni). Ég fann að ég hafði grennst, mér leið betur bæði andlega og líkamlega en samt kom í mig þessi púki sem sagði að ef þetta myndi ekki virka eins og ég vildi að þetta virkaði þá myndi ég hætta að vigta og mæla. Hversu oft ætli ég hafi stigið á vigtina og hugsað rétt áður "ef ég er búin að þyngjast um meira en 4 kíló þá geri ég eitthvað í mínum málum"? ALDREI - en eftir einn mánuð án kolvetna var ég farin að hugsa um að hætta ef ég missti ekki 4 kíló. Kerlingin bara að deyja úr frekju. 

Ég er endalaust þakklát æðri mætti sem bankaði í hausinn á mér þennan dag og sagði "og gerir hvað Guðrún?" - hann hefur hjálpað mér að vera í fráhaldi í rúmlega 1 1/2 ár, gert líf mitt og sál að góðum stað til að vera á og það eina sem ég þarf að gera er að sleppa tökunum á þeirri lífseigu blekkingu að ég geti gert eitthvað sjálf til að bjarga mér og leyfa honum að grípa mig. 


Inside information

Hitti sölustjóra frá Holta í gær í vinnunni. Hann var að færa okkur kjúkling fyrir kynningu og ég ákvað að spyrja hann bara aðeins fyrst ég hafði hann á staðnum.

Niðurstaðan er eftirfarandi:

Holta Kjúklingalæri á beini (með skinni) eru sykursprautuð og það stendur líka á miðanum.

Holta kjúklingalæri úrbeinuð (án skinns) eru EKKI sykursprautuð og verða ekki sykursprautuð.

 

Þessar upplýsingar voru í boði Holtakjúklinga. 


Betrunarvist sem gerir menn betri

Meðferðargangurinn á Litla Hrauni er frábært framtak og algjörlega í takt við það sem fangelsi eiga að gera - skila betri mönnum aftur út í þjóðfélagið. Vinnufélagar mínir á Gestgjafanum heimsóttu meðferðarganginn um daginn og sýndu föngunum aðeins handbrögðin í eldhúsinu, kenndu þeim að elda nokkra rétti og færðu þeim kryddjurtir. Það mátti varla á milli sjá hverjir voru spenntari yfir heimsókninni, þeir sem buðu fram þekkingu sína eða þeir sem urðu hennar aðnjótandi. 

Ég vona að einhver forríkur styrki þetta verkefni næstu milljón árin. Það er svo margt sem þessir menn hafa farið á mis við. Sumir þeirra hafa aldrei eldað mat, gætu jafnvel ekki harðsoðið egg, og sumir hafa aldrei tekið til í kringum sig eða þurft að bera ábyrgð á sjálfum sér - fullt af hlutum sem okkur þykja eðlilegir gæti allt eins verið latína fyrir þeim því þetta hefur ekki verið partur af þeirra lífi. Það á að vera tilgangur fangelsisins að kenna föngum að fóta sig í lífinu, sýna þeim og æfa þá í hlutum sem "venjulegt fólk" gerir dagsdaglega. Það eina sem fólgið er í fangelsisvist er skerðing á frelsi en það er ekki það sama og skerðing á mannréttindum. Enska orðið correction facility á nokkuð vel við um það sem fangelsi eiga að gera í mínum huga. Ekki bara að vera refsing fyrir glæpinn heldur einnig að reyna að koma í veg fyrir að sami maður brjóti aftur af sér. Því miður er biðlisti inn á þennan gang sem þýðir að það er ekki pláss fyrir alla sem vilja þiggja þá aðstoð sem er í boði.

 

 


mbl.is Fangar snúa við blaðinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Komin heim

Ó hvað það er gott að vera komin heim. Það ætti að setja það í landslög að bannað verði að keyra leiðina milli Hornafjarðar og Reykjavíkur í einum rykk, skylda að gista a.m.k. einu sinni á leiðinni. Æj að maður hefði nú bara tíma í svoleiðis munað.

Við erum allavega örþreytt eftir alla þessa keyrslu og nú tekur við heiftarleg keyrsla í vinnunni því blaðið á að fara í prentun á þriðjudaginn í næstu viku og mánudagurinn fyrir það er frídagur. Stundum eru nefnilega frídagar til algjörrar óþurftar og aðeins til þess fallnir að maður þarf að vinna sér til húðar dagana á undan eða eftir.

En nóg af neikvæðni. Ég hef nefnilega tekið eftir því að sumt fólk hefur aldrei neitt jákvætt að segja um nokkurn skapaðan hlut og mér finnst það ótrúlega sorglegt því oft er um hnyttið og skemmtilegt fólk að ræða. En það hefur neikvæðnina og kaldhæðnina að leiðarljósi í öllu sem það segir um allt og alla.

Dæmi I: Vinnufélagi fær sér nýjan bíl - jákvæða eða passífa manneskjan segir "nei sko er Nonni kominn á nýjan bíl" - Neikvæða manneskjan segir "Ohh þetta eru algjörar druslur þessir bílar"

Dæmi II: Við sjáum stóran hund í göngutúr með eiganda sínum - jákvæða eða passífa manneskjan segir "vá en stór/flottur hundur" - Neikvæða manneskjan segir "fussss ojj bara", án þess að gefa frekari rök.

Dæmi III: Bubbi Morthens er í fréttunum út af einhverju - Jákvæða eða passífa manneskjan segir "Já Bubbi lætur nú í sér heyra" - Neikvæða manneskjan segir "iss algjörlega útbrunnið sellát"

Svona mætti lengi telja.

Mér finnst lífið svo miklu skemmtilegra eftir að ég fór að sjá það jákvæða í hlutunum og þakka fyrir það sem ég hef. Auðvitað tekst það ekkert alltaf og maður dettur í neikvæða gírinn, ég er nú enginn Pollíanna kannski en ég reyni upplifa glasið sem hálffullt en ekki hálftómt í flestum tilvikum og það gerir stundum gæfumuninn. Að geta farið að sofa með þá vitneskju að maður hafi verið jákvæður og í sátt við fólkið í kringum sig yfir daginn og hafi ekki baktalað náungann eða tekið þátt í neikvæðu röfli er mjög góð tilfinning.


Hvaða dagur er eiginlega í dag?

Svona frídagur inni í miðri viku er náttúrulega bara rugl. Ég tók að mér vinnu síðasta fimmtudag þannig að ég á ekki að venjast svona fimmtudagsfríi og allan daginn leið mér eins og það væri föstudagur, laugardagur og aðallega sunnudagur. Í dag er ss. mánudagur hjá mér og búist er við enn meira rugli um helgina því svo verð ég í fríi á mánudaginn því ég er að fara austur á Höfn á Hornafirði á jarðarför.

Dagurinn í gær var líka svo týpískur sunnudagur, vinna daginn eftir, við kallinn þrifum alla glugga, fór með dótturina í sund og bara almenn kósíheit. Samt var fimmtudagur og ég er bara ekki enn búin að ná mér að hafa bara fengið eins dags helgi. 


GAS GAS GAS

og nei ég ætla sko ekki að blogga um löggur, óeirðir, óskipulögð mótmæli (les: skrílslæti) og vörubílsstjóra.

Eftir matinn í kvöld stóð dóttir mín (5 ára) allt í einu upp, eftir að við kallinn höfðum verið að grínast eitthvað með gasgrill, og segir "GAS - GAS". Við kallinn litum hálfhlæjandi hvert á annað og spurðum "hver kenndi þér að segja þetta?" Svarið var einfalt "sko við vorum í löggubófa á leikskólanum og ég og Guðbjörg vorum bófar og Hjördís (5-6 ára) var löggan og elti okkur og kallaði GAS GAS GAS".

Fimm ára gömul leikskólabörn eru s.s. búin að læra það núna að löggan segir Gas Gas Gas.  

 

Nú skal syngj'um löggur

sem þola ekkert þras

þær eiga'ð vernda lögin

og nota til þess gas

lög lög lög lög löööööööög

Gas gas gas

gasgasgasgasgas

o.s.frv.

 

*Það skal tekið fram að þessi færsla er hlutlaus í umræðunni löggur vs. mótmælendur. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Hér er ég, hér er ég

Marilyn
Marilyn
... bara allt fínt, en þú?

Nóv. 2024

S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband