Vinnan, barnið og ég

Ég er í ótrúlega skemmtilegri vinnu þar sem eitthvað nýtt og spennandi gerist á næstum hverjum degi. Hugsanlega er það bara ég sem finnst þetta spennandi, kannski myndi enginn nenna að hlusta á sögur úr vinnunni minni og hvað kokkarnir elduðu í dag og hvað þessi auglýsandi bað um að við myndum gera og um textana sem ég las eða um textana sem ég skrifaði, en mér finnst þetta æði. Rétt í  þessu var samstarfskona mín að sýna mér danskt matarblað þar sem hugmynd úr Gestgjafanum er svo greinilega notuð, og við skríktum af kátínu yfir því að okkar blað hafi komið fram með hugmynd sem síðan er notuð í stóru matarblaði í Danmörku og á kannski eftir að dreifast víðar.  Ekki amalegt að vera fyrstur til að gera eitthvað á litla Íslandi.

Páskarnir búnir... þetta voru u.þ.b. ópáskalegustu páskar ævi minnar. Sendi dótturina í fóstur og svo vorum við kallinn að vinna og læra allt páskafríið, nema á páskadag, þá tókum við okkur svolítið famelíufrí og heimsóttum dótturina í fóstrið hjá tengdó og eyddum deginum þar sem var mjög notalegt. 

Talandi um dótturina... hún er fimm ára að verða fimmtán, kann að telja nánast villulaust upp í 100, þekkir alla stafina og getur lesið einföld orð, reimar skóna sína sjálf og fær lög á heilann heilu klukkutímana (móður sinni oft til mikillar armæðu). Í dag er hún að fara í 5 ára skoðun og ég get varla á mér heilli tekið að vera ekki það foreldri sem fer með hana í skoðunina. Pabbinn hlýtur þann heiður í dag. Ég man þegar ég fór með hana í 3 ára skoðunina. Hjúkkan var ein sú fúlasta í bransanum og virtist ekki hafa neinn áhuga á því að vita hvað stelpan kunni heldur eingöngu hvað hún kunni ekki. Á þessum tíma kunni hún að telja upp í 20 en var ný búin að finna upp einhvern brandara með pabba sínum þar sem þau slepptu alltaf 4 úr og það ruglaði hana og hjúkkan leit á mig með hneykslunaraugum og sagði "þið verðið að æfa þetta", svo var eitthvað fleira í þessum dúr, ungi sem var önd eða öfugt og hvað á maður að gera þegar maður er þreyttur "vakna" sagði dóttirin - sem er vissulega rökrétt svar þar sem við erum alltaf svo ferlega þreyttar á morgnana! En hjúkkunni stökk ekki bros, ekki einu sinni þegar dóttirin spurði hana hvort hún væri læknir, og mér fannst eins og ég væri í skoðun en ekki stelpan mín.

Í dag veit ég auðvitað að kannski var þessi skoðun alls ekkert svona, kannski var hjúkkan rosa ánægð og bara ég sem einblíndi á það sem miður fór. Heimurinn er nefnilega bara 10% það sem gerist og 90% það sem ég upplifi og held um það sem gerist.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Hér er ég, hér er ég

Marilyn
Marilyn
... bara allt fínt, en þú?

Nóv. 2024

S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband