Í dag fékk Laika mín loksins að deyja. Fann það frá því að ég vaknaði að stundin var að renna upp og kveið henni þó ég vissi að þetta væri það eina rétta. Þó ég vissi upp á hár að dagurinn í dag væri dagurinn var ég samt með svolítinn kvíða og ekki undirbúin og það var hræðilega erfitt að sleppa tökunum á líkamanum hennar og labba út af dýraspítalanum með engan hund.
Laika kom í heiminn þann 10. ágúst 1994 sem þýðir að hún hefði orðið 14 ára í sumar. Hún bjó fyrstu 10 ár ævi sinnar á Ólafsfirði hjá manni sem elskaði hana alveg ótrúlega mikið. Leiðir okkar lágu saman þegar ég vann í Gæludýraverslun Akureyrar fyrir rétt tæpum fjórum árum síðan. Eigandi hennar kom inn í búðina, spurði hvort við vissum um einhvern sem vildi taka að sér golden retriever-tík og ég sagði já án þess að spyrja manninn minn, foreldra mína (sem ég dvaldist hjá fyrir norðan) og nágranna mína fyrir sunnan. Ég sagði bara já því svona hund vildi ég eiga. Ekki vissi ég þá að ég var um það bil að fá þann blíðasta, gáfaðasta og besta hund sem til hefur verið.
Þó hún væri orðin næstum 10 ára gömul þegar ég fékk hana var hún samt eins og hvolpur; prakkari sem átti það til að stinga af og skoða bæinn, alltaf til í að togast á og mikill mathákur ef réttar fæðutegundir voru í boði.
Hún elskaði vatn og grjót og þegar þessi tvö efni komu saman þótti henni skemmtilegast. Að kafa eftir grjóti var hennar sérgrein og þá skipti engu máli hvað grjótið var stórt, hún gat borið það með sér ótrúlegar vegalengdir.
Laika var mjög mannelsk og fannst ekkert skemmtilegra en að fá gesti í heimsókn. Þar sem þeir sátu við borðstofuborðið eða í sófanum kom hún til þeirra og ýtti undir hendina á þeim með höfðinu til að segja "klappaðu mér" og hún gafst ekki svo auðveldlega upp.
Farvel elsku besta Laika mín. Mér þykir leitt að hafa ekki alltaf veitt þér þá athygli sem þú áttir skilið og ég sakna þín. Ég veit að þér líður betur á nýja staðnum og ég vona að afi taki þig með í útreiðartúr.
voff voff grrrrr rrrrrrr voff
Athugasemdir
Falleg tík sem þú hefur átt og eftirsjáin skiljanlega mikil. Er sjálfur á mínum 4jða hundi og get vart huxað mér lífið án þessa tryggu félaga. Þrisvar hef ég séð á eftir hundi og æ lofað að hætta að leggja þetta á mig en jafnoft svikið loforðið. Vona þú finnir þína leið með eða án hundahára, blessuð sé minning Laiku.
lýður árnason (IP-tala skráð) 19.4.2008 kl. 03:45
æi elskan mín, nú fer ég að vola
Elín Sigríður Grétarsdóttir, 19.4.2008 kl. 10:01
Hæ elsku Guðrún og Co Knús og klem til ykkar allra, þetta var alveg stórmerkilegur hundur, fékk að kynnast henni í próftíð forðum daga.
Tinna Mjöll Karlsdóttir, 19.4.2008 kl. 12:43
Votta ykkur samúð mína...... Lísa mín þurfti að fá að fara þegar hún var bara 7 ára, rosalega veik. Var búin að eiga hana öll árin. Kom inn í mitt líf þegar ég var 10 ára og var ein að fjölskyldunni....... Þetta er ekki auðvelt....
Ég þekkti eina flotta Golden tík útí Noregi sem hét Laika........ Fyndið......
En hún á örugglega eftir að skemmta sér vel í útreiðartúr.......
Helga Dóra, 19.4.2008 kl. 13:05
Samúðarkveðjur og kærleiksknús
Sykurmolinn, 19.4.2008 kl. 13:21
Elsku Guðrún Vaka, innilegar samúðarkveðjur til ykkar allra. Henni líður örugglega vel á góða staðnum núna.
Knús
María, 19.4.2008 kl. 14:22
Hæ elsku Gu Va mín;-)
Yndisleg færsla...æ ég skil þig svo vel...maður tengist þessum litlu loðbörnum sínum alveg ótrúlega sterkum böndum, sem ekkert allir skilja. Það fer að styttast í það að ég missi hann Leo minn, sem er búinn að ganga í gegnum súrt og sætt með mér, og tilhugsunin er vægast sagt erfið. Tók eftir því að þau eiga sama afmælisdag, 10. ágúst. Leo ári yngri;-)
Knús sæta mín, G.
Gerdur Hardardottir (IP-tala skráð) 21.4.2008 kl. 22:31
Sæl Guðrún Vaka innilegar samúðarkveðjur til ykkar allra við hér á Ólafsfirði erum búin að gráta úr okkur augun að lesa hvað þú skrifar fallega um Laiku og þekkjum vel allar lýsingarnar af henni . Þökkum kærlega fyrir hvað þú varst góð að taka hana að þér og hugsa svona vel um hana. kærar kveðjur Friðþjófur og Þrúður.
Þrúður og friðþjófur (IP-tala skráð) 23.4.2008 kl. 11:50
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.