Að borða til að lifa

Ég hef verið í þessum sporum - of "mjó" til að fara í aðgerð og of feit til að líða vel í eigin skinni. Og reyndar leið mér aldrei vel því jafnvel þegar ég var grönn sem unglingur fannst mér eins og ég passaði aldrei inn neins staðar, ég var öðruvísi en hinir, hugsaði annað, hafði öðruvísi samvisku, öðruvísi viðmið og leit öðruvísi út (þetta fannst mér jafnvel þegar ég gat gengið í gallabuxum nr. 29 og magabol, þá u.þ.b. 15-16 ára). Enginn ætti að láta sig dreyma um að ég hafi þá ætlað mér að verða þunglynd, feit, einangruð og óhamingjusöm kona. Ég var þessi hressa, djammarinn, brandarastelpan og þekkti fullt af skemmtilegu fólki. Þetta gerðist bara og samt gerðist þetta ekki bara, fæstir verða feitir af því að borða eins og venjulegt fólk, eins og þeir þurfa á að halda og svo ekki meira. Málið er bara að ég er fíkill - ég er fíkill í sterkju og sykur, hveiti og ger og ég er líka fíkill í magn, mér finnst gott að borða mikið af því sem bragðast vel, en ef ég læt ákveðnar fæðutegundir inn fyrir mínar varir þá verð ég fyrir þeim óeðlilegu viðbrögðum að langa stöðugt í meira og ég get t.d. ekki fengið mér einn mola úr skrjáfpoka nema hugsa umsvifalaust um hvenær ég geti réttlætt það að fá mér annan (þ.e.a.s. ef einhver er nálægur - annars fylgir bara hver á eftir öðrum hugsunarlaust þar til pokinn er tómur eða mér orðið óglatt, jafnvel þá hætti ég ekki). Þetta er vandamál sem ég hefði kannski á einhverjum tímapunkti getað stoppað en þá var það ekki farið að valda mér skaða og ég vildi ekki hætta. Það var ekki fyrr en það var orðið of seint að ég áttaði mig á að það var eitthvað verulega mikið að - reyndar var það ekki fyrr en ég fann lausnina að ég áttaði mig á því hvað var að. 

Það kom ekkert sérstakt fyrir mig í æsku, foreldar mínir eru enn hamingjusamlega giftir, báðir eiga þeir mörg systkini sem eru öll í góðu sambandi og hittast reglulega þannig að ég á mjög stóra og samheldna fjölskyldu. Við vorum hvorki rík né fátæk, ég var ekki ofdekruð þó ég fengi allt sem ég þurfti og stundum meira til, og mér gekk vel í námi og átti góðan vinahóp. Auðvitað gekk á einhverju drama, stundum vildu þessir ekki leika við mig eða mér var sagt að ég væri með of mikla stæla enda lék ég oftast trúðinn því mér fannst ég svo asnaleg. Ég skildi samt aldrei afhverju  mér fannst ég svona asnaleg, eftir á að hyggja var ég ekkert svo asnalega nema einmitt afþví að ég var að reyna að fela hvað mér fannst ég asnaleg. Ég byrjaði að drekka um 14 ára gömul en framan af gat ég vel skemmt mér án áfengis. Ég hef eiginlega bara átt einn alvöru kærasta og ég kynntist honum þegar ég var 19 ára. Hann hefur aldrei beitt mig ofbeldi og við höfum ekki verið í neinum "haltu mér slepptu mér" leik, hann hefur bara verið yndislega góður við mig og ég veit stundum ekki hvað ég hef gert til að eiga slíkan mann skilið.

Þegar ég var 25 ára var ég búin að vera með unnusta mínum, sem var þá sjómaður, í 6 ár, við áttum 2 ára gamla dóttur og ég var að deyja úr óhamingju þrátt fyrir að eiga allt til alls. Ég gat ekki tekið til heima hjá mér þrátt fyrir að sinna skólanum lítið sem ekkert og geyma barnið á leikskóla eins lengi og boðið var upp á. Ég var stanslaust að leita leiða til að ná tökum á ofátsvandamálinu mínu, ég gat ekki stillt mig, fór alltaf í einhvern "fokk it" gír þegar ég gafst upp og sagði "skítt með það - eitt kíló enn sést varla á mér fyrst svona er komið fyrir mér". Ef ég fékk mér sælgæti gat ég ekki hætt fyrr en mér lá við uppköstum eða allt kláraðist og ég beitti ýmsum brögðum til að koma í veg fyrir að matur og sælgæti kláruðust áður en ég væri búin að fá minn skerf. Ég sendi stelpuna mína stundum fyrr í háttinn svo ég gæti pantað mér mat eða notið þess sem ég keypti í búðinni fyrr um daginn. Stundum sat ég í sófanum og borðaði fram á nótt og oft langaði mig til að þróa með mér bulimíu - óskaði þess að ég gæti smitast af annað hvort bulimiu eða anorexíu til að geta bara borðað og verið mjó á sama tíma eða haft viljastyrk til þess að svelta mig. Ég þoldi að sjálfsögðu ekki þetta ástand og á hverju kvöldi eftir ofát fór ég að sofa full af fögrum fyrirheitum (og orku) um að á morgun myndi ég sleppa þessu, á morgun myndi ég ekki kaupa nammi eða panta pítsu, á morgun myndi ég fara í ræktina og borða bara kjúkling og grænmeti. Og ég virkilega meinti það - ég þráði að fá kraftinn í mig til að framkvæma þessa hluti, þráði að losna út úr þessari þjáningu sem felst í því að þurfa að borða til að sleppa við að finna fyrir tilfinningum á borð við einsemd, leiða, reiði, gremju og satt að segja kunni ég ekki einu sinni að höndla gleði eða óvænt tíðindi og tók öllu með frekar óeðlilegu "jafnaðargeði" - ég stærði mig líka af því að vera ekki langrækin og geta fyrirgefið allt en það var jú einmitt vegna þess að ég var ófær um að muna tilfinningar í langan tíma heldur gróf ég þær undir fjalli af mat og sætindum. Þessum ofátsköstum fjölgjaði bara stöðugt og styttra varð á milli þeirra. 

Ég hélt að það eina sem væri að mér væri hvað ég væri feit og löt og mikill aumingi. SAmt sem áður eyddi ég gríðarlegum tíma og fjármunum í að leita að lausninni, lesa um nýjar megrunaraðferðir, fara til einkaþjálfara og vera í ræktinni, prófa atkins eða einhverja útgáfu af því, líkama fyrir lífið og að lokum danska kúrinn. Mig dreymdi um að fá einhvers konar leyfi til að vera feit (frá samfélaginu) og ég gældi líka við þá hugmynd að fita mig upp í aðgerðina, ég reyndi líka einu sinni að framkalla uppköst en bara gat ekki stigið það skref. Ég gæti sagt venjulegri manneskju sem hefur bara misst tökin stundarkorn á neyslunni hvernig á að fara að því að léttast og halda sér formi og ég veit líklega álíka mikið um brennslu, vöðvaþjálfun og mataræði og sæmilegur einkaþjálfari eftir að hafa lesið margar slíkar greinar, horft á þætti og lesið bækur og jafnvel farið í áfanga í næringarfræði. Ég veit þetta allt en vegna þess að flestir kúrar og flest prógrömm innihalda matartegundir sem valda mér fíkn í einhverju magni þá eru vopnin samstundis slegin úr höndunum á mér og á endanum læt ég undan því sem líkaminn kallar á... og það versta er að ég hef ekki hugmynd um það afhverju. Löglegir nammidagar hófust á föstudagskvöldum og enda á sunnudagseftirmiðdögum ef þeir voru innifaldir í mataræðinu. Stundum náðu þeir fram á mánudaga ef það voru miklir afgangar. Svo hófst aftur baráttan við að halda sig að mataræði sem ég hataði og olli mér fíkn um leið. 

 

Árið 2006 var ég úrkula vonar um að mér tækist þetta, ég var eiginlega hætt að reyna því mér misstókst alltaf allt. Ég þráði svo heitt að verða mjó, þráði að hætta að borða svona, þráði að ná tökum á þessari undarlegu áráttu að vera alltaf að leita í sukkmat. Unnustinn var orðinn þreyttur á að horfa upp á mig og það var ekki bara afþví að ég var svo feit heldur líka vegna þess að ég var að deyja úr óhamingju sem ég taldi vera þunglyndi en ómeðhöndluð fíkn minnir nefnilega um margt á þunglyndi og henni getur jafnvel svipað til fleiri geðsjúkdóma en lausnin er ekki fólgin í lyfjum heldur fráhaldi frá fíknvaldinum og andlegri vinnu. Vinkona mín var búin að ná góðum árangri í 12 sporasamtökum fyrir matarfíkla en fyrr skyldi ég dauð liggja en að viðurkenna að ég gæti ekki stjórnað eigin lífi og fara í eitthvað matarfangelsi þar sem maður mátti ekki borða brauð og pasta og ekki drekka áfengi. Ég sem átti íbúð, var í háskólanámi, átti bíl og mann og barn og fullt af peningum - ég borðaði bara aðeins of mikið, var aðeins of feit og það var það eina sem var að, þurfti bara að passa mig. Á endanum samþykkti ég samt að fara með henni á fund og það sem ég heyrði þar var ekki ósvipaði sögunni sem fór hér á undan. Stanslaus þráhyggja í mat, hvað átti að borða næst, hvað var maður búinn að borða mikið, hvað var til,  löngun í frið til að borða hömlulaust, át í felum, geta ekki hætt að hugsa um sælgæti sem er til uppi í skáp og bíða þar til gestirnir fara til að geta fengið sér og þurfa ekki að deila. Að vera í veislu og telja ferðirnar hjá hinum til að geta ákveðið sjálfur hvenær er eðlilegt að fara aðra ferð - eða borða lítið sem ekkert í veislum og háma svo í sig þegar heim er komið þar sem enginn sá til. Það hlýtur hver sem er að sjá að þetta er ekki eðlileg hegðun gagnvart mat, það er ekki eðlilegt að geta ekki ákvarðað hversu mikið er of mikið, það er ekki eðlilegt að geta ekki hætt að hugsa um nammið í skálinni þegar maður ætti að vera að spjalla við vini sína, það er ekki eðlilegt að borða fullan haldapoka af sælgæti á einu kvöldi einn af því að manni leiðist svo og það er ekki eðlilegt að líða alltaf illa.

Ég var svo heppin að finna lausn innan 12 spora samtaka sem takast á við fíknina í ákveðnar matartegundir og líka fíknina í magnið því ef ég hefði ekki vigt til að stjórna magninu ofan í mig myndi ég bara troða mig út af því sem er í lagi, t.d. kjöti eða ákveðnum grænmetistegundum. Ég tók út fæðutegundirnar sem valda mér fíkn og fór að vinna með sponsor að því að borða jafnt og eðlilega og samkvæmt prógramminu sem mér var gefið á hverjum degi. Þetta losaði mig við u.þ.b. 35 kg af fjötrum á tæpu ári. En vandamálið var ekki hvað ég var feit og vandamálið var ekki hvað allir hinir voru ósanngjarnir við mig, vandamálið var mér sjálfri að kenna og sponsorinn og 12 sporin hjálpuðu mér að sjá að ef ég sætti mig ekki við heiminn eins og hann er og hætti að reyna að breyta honum eftir mínu höfði þá næði ég aldrei bata frá ofátinu. Ég hélt nefnilega að allir hinir þyrftu að breytast, að matarframleiðendur þyrftu að hætta að framleiða matinn sem ég ræð ekki við að borða, að allir þyrftu að skilja matarfíkn og að allir þyrftu að komast í 12 sporasamtök til að ég yrði hamingjusöm. Allir hinir voru fífl og ég var sú eina (ásamt nokkrum útvöldum) sem hafði rétt fyrir mér. Þetta var sem betur fer ekki svona því ef allir þurfa að breytast nema ég á ég ekki séns - ég get engum breytt nema sjálfri mér og ég fékk aðstoð til að sjá hvar ég hafði haft rangt fyrir mér og hvernig ég ætti að beyta sjálfri mér í mínum daglegu málum. 

 

Sumir halda því fram að feita fólkið sem vill kalla fituna sína sjúkdóm séu í raun bara að varpa vandanum á einhverja greiningu í staðinn fyrir að sjá að offitan sé því sjálfu að kenna. Það er nefnilega akkúrat öfugt í 12 spora samtökum. Fitan sem sest oftar en ekki utan á matarfíkla er afleiðing en ekki orsök. Við gætum sogað hverja einustu fituörðu af matarfíkli og hann myndi hiklaust halda áfram að borða hömlulaust. Matarfíkn er sjúkdómur sem hægt er að halda í skefjum á sama hátt og áfengisfíkn - með því að sleppa þeim matartegundum sem innihalda fíknvaldandi efni (t.d. sykur, hveiti og ger) og vinna sporin 12 með trúnaðarmanni. Ef þetta er ekki sjúkdómur er ekkert hægt að gera - ef þetta er bara aumingjaskapur þá er ekkert til að ná bata frá. Sjúkdómur er eitthvað sem sjúklingur getur leitað lausnar frá. Svo heppilega vill til að nokkur samtök eru til sem hjálpa fólki að takast á við matarfíkn og átraskanir, t.d. GSA, OA og ABA. Það gefur auga leið að ef þeir sem þjást af sjúkdómi leita sér hvorki lausnar né fylgja leiðbeiningum lækna þá verður enginn bati. Krabbameinssjúklingur sem nennir ekki að taka lyfin sín eða mæta í lyfjameðferðir getur ekki átt mikla batavon. Á sama hátt verða matarfíklar að fylgja leiðbeiningum og taka ábyrgð á sínum sjúkdóm. Að kalla matarfíkn sjúkdóm er ekki firring frá ábyrgð eða leið hinna feitu til að kenna einhverjum öðrum um hvernig komið er fyrir þeim heldur staðreynd sem leiðir til þess að hægt sé að takast á við ástandið og bera ábyrgð á því. Það besta er að þessi lausn kostar ekki neitt og batinn sem næst miðast við það sem hver og einn leggur í hann. Komist einhver að þeirri niðurstöðu að þessi lausn henti honum ekki getur hann snúið aftur á veg fíknarinnar og uppfyllt þessar hvatir því maginn er enn heill. 

Sumir segja að matarfíklar séu verr staddir en alkar því alkar geti hætt að drekka en það sé ekki hægt að hætta að borða. Alkar hætta ekkert að drekka - þeir drekka vatn, gos, safa og fullt af drykkjum, þeir sleppa bara þeim drykkjum sem innihalda alkohól - flestir sleppa þeir líka mat og sælgæti sem inniheldur alkohól. Matarfíkillinn hættir heldur ekki að borða - hann hættir að borða matartegundir sem innihalda þau efni sem valda honum fíkn. Ég veit það eitt að ég gæti aldrei lifað á dufti og fyrir mér þýðir 5% magi bara 5% líf því ég hef verið í þeirri stöðu að langa til að borða en ekki getað það og mér leið hræðilega og leið andlegar kvalir vegna þessara mótsagnakenndu langana. Ég er fegin að hafa ekki fallið fyrir þeirri ranghugmynd að magaaðgerð sé eina lausnin sem getur gert mig mjóa og gefið mér betra líf. Líffærin mín eru ósködduð eftir ofátið ef frá eru talin slit á húð. Ég get tekist á við öll vandamál daglegs lífs sem áður komu mér á kné - hversu stór eða smávægileg sem þau eru. Ég get átt í samskiptum við foreldra mína en áður sleppti ég því stundum að svara í símann þegar ég sá númerið þeirra. Ég fæ ekki kvíðakast þegar síminn hringir og ég er frjáls frá því að velta því stanslaust fyrir mér hvað annað fólk er að hugsa um mig. 

Það besta er að ég er frjáls frá matarfíkn. Ég hef öðlast góðan bata og fengið áður óþekktan kraft inn í mitt líf. Ég þurfti ekki að fá hann til að geta byrjað á þessu - ég fékk hann afþví að ég játaði að ég gat ekki staðið í þessu sjálf. Allar mínar aðferðir og allt sem ég hafði reynt hafði brugðist því ég treysti alltaf á sjálfa mig, ég trúði á Guð en lék hann samt alltaf sjálf í mínu lífi - ég komst hins vegar að því að ég er eigingjörn og óheiðarleg, ekki bara við aðra heldur líka sjálfa mig, og algjörlega ófær um að stjórna nokkrum hlut í mínu lífi. Æðri máttur samkvæmt mínum skilningi á honum er kominn í staðinn og hefur nú þegar tekist miklu betur upp en mér.

Ég hef haldið mig algjörlega frá sykri, hveiti, sterkju, geri og áfengi í 2 ár. Ég er búin að vera í kjörþyngd í meira en 1 1/2 ár - vigtin fer varla upp og varla niður og fötin mín passa enn þá eftir 3 mánuði. Ég hef öðlast lífsfyllingu og hamingju sem ég hélt að væri ekki hægt að finna fyrir og hún hefur ekkert með fatastærðina mína að gera heldur andlegt ástand mitt og þá nýju sýn sem ég hef fengið á lífið með hjálp sporanna 12.  

 gudda feitafacesmall


mbl.is Metaðsókn í offitumeðferð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Ingi

Vá þetta var sko lesning

Til hamingju með árangurinn og hamingjuna sem þú fannst og finnur

Þú ert sterk kona

En ekki reyna að segja mér að þessi eldri kona þarna vinstra megin sé þessi fallega unga kona þarna hægra megin

Spurning um að láta svona konur eins og þig fá fálkaorðuna.

Hafðu það gott vinkona

Ómar Ingi, 13.8.2008 kl. 23:49

2 Smámynd: Elín Sigríður Grétarsdóttir

takk fyrir að vera með, fyrir að vera þú og bara ... vera vaka

Elín Sigríður Grétarsdóttir, 13.8.2008 kl. 23:54

3 Smámynd: Marilyn

Ég vona að forsetinn taki aldrei upp á því að afhenda fálkaorðuna fólki sem er duglegt að taka meðalið sitt en þakka þér nú samt fyrir

Held að þú ættir sjálfur að fá einhver verðlaun fyrir að komast í gegnum allan þennan texta

Marilyn, 13.8.2008 kl. 23:54

4 Smámynd: Steinunn Ósk Steinarsdóttir

Takk fyrir að deila sögu þinni, ótrúlegt að lesa þarna sögu sem gæti allt eins verið um sjálfa mig. Gangi þér vel áfram í fráhaldinu og hamingjuríka lífinu :)

Steinunn Ósk Steinarsdóttir, 14.8.2008 kl. 00:07

5 identicon

Hæ elskan:-)

FRÁBÆR færsla hjá þér, elsku stelpa!! Húrra fyrir þér. Ég er búin að vera að skoða umfjöllunina inn á Moggablogginu sem fór af stað eftir að einhver Sigrún fór að þenja sig og satt best að segja veit ekki hvort ég á að hlægja eða gráta að sumum sem tjá sig þar inni. Reyndar, eftir að hafa dottið í að skoða Moggabloggið meira en mér er hollt undanfarið á ég ekki orð yfir hvað margir eru tilbúnir að vaða fram með ákveðnar skoðanir og blammeringar á því sem þeir hafa ekki eina einustu hugmynd um. Mikið ofboðslega held ég að mörgum þarna úti líði illa!

Þetta er frábær pistill hjá þér sem hittir algjörlega naglann á höfuðið í þessari umræðu. Ég hefði viljað tengja hann inn á umræðuna hjá þessari Sigrúnu en er, eins og þú þekkir alltof vel, frekar svona út á túni tæknilega séð, þannig að ég kunni það ekki;-)

Farðu vel með þig, kv. G

gerdur (IP-tala skráð) 14.8.2008 kl. 00:40

6 Smámynd: Sykurmolinn

Takk fyrir að deila þessu með okkur, alveg frábær lesning!

Þó ég hefði 1% eftir af maganum og ætti að vera pakksödd eftir hálfa skeið af bananamauki, þá væri ég samt viðþolslaus af "hungri"....  Takk fyrir að vigta og mæla

Sykurmolinn, 14.8.2008 kl. 09:14

7 Smámynd: Brussan

Þetta er snild og þú ert snillingur......og það er ótrúlegt hvað við eigum margt sameiginlegt.

Brussan, 14.8.2008 kl. 09:27

8 identicon

Hæ Guðrún.

Flott lesning :D Bæði ert þú fanta góður penni og þessi grein er eitthvað sem öllum er hollt að lesa.

Baráttukveðjur

Tinna Mjöll (IP-tala skráð) 14.8.2008 kl. 15:05

9 Smámynd: Þórunn Halldóra Ólafsdóttir

Sæl og blessuð.

Mikið var gott að lesa þennan pistil hjá þér!  Ég er sjálf að byrja hjá GSA og mér finnst bara gott að lesa svona sögur sem eru að hluta til skrifaðar um mig sjálfa! Ég mun örugglega fylgjast með blogginu þínu áfram.

Þórunn Halldóra Ólafsdóttir, 14.8.2008 kl. 19:52

10 Smámynd: Ella Guðný

Takk fyrir að vigta og mæla og deila þinni sögu með okkur hinum, ómetanlegt.

Ella Guðný, 14.8.2008 kl. 19:56

11 Smámynd: Marilyn

Takk fyrir að lesa og kommenta öll. Met það mikils.

Marilyn, 14.8.2008 kl. 22:06

12 Smámynd: María

Vááá takk fyrir að skrifa þetta snillingur. Það er fáránlegt að lesa svona um sjálfan sig á bloggi hjá öðrum - en samt gott að vita að maður er ekki einn í heiminum.

María, 15.8.2008 kl. 10:18

13 Smámynd: Jón Aðalsteinn Jónsson

Góð færsla og held að flestir kannist við það sem þú ert að segja þó a mismunandi máta Það er rétt að þetta er ævibarátta eitt sem að mig langar þó að spyrja þig sem að ég hef verið að pæla í og væri gaman að fá frá öðrum. Ég hef farið þessa leið ur ofþyngd niður í eðlilega þyngd og upp aftur það sem mer finnst skrítið er að ég sá aldrei breytingu ég meina í speglinum mér fannst ég alltaf vera eins einnig þegar ég bætti á mig aftur spegilmyndin er sú sama svo skoðar maður ljósmynd og þá blasir sannleikurinn við manni. :) ´Börnin voru að skoða myndir um daginn hjá mömmu sinni meðal annars mynd tekna í Þórskaffi þar sem að maður sem að dansaði við hana vakti athygli þeirra og hún benti á að þarna væri faðir þeirra það var sálitið scary að þekkja ekki sjálfan sig og ennþá áhugaverðara að vita það að á þeim tíma upplifið maður sig alveg eins og maður upplifir sig einhverjum 50 kg þyngri Er þetta eitthvað sem að aðrir hafa fundið fyrir tild æmis þu.

Jón Aðalsteinn Jónsson, 15.8.2008 kl. 21:09

14 Smámynd: Marilyn

Jahá! Ég er algjörlega blind á eigið holdafar. Fannst ég ekkert svo svakalega þegar ég var yfir 100 kg (ss. í algjörri afneitun á að þetta væri í raun svo slæmt), fannst ég í raun alveg eins og þegar ég var u.þ.b. 85 kg - ss. bara svolítið yfir kjörþyngd en annars bara allt í lagi.

Í dag - í kjörþyngd (og þetta hefur aukist gífurlega í núverandi óléttuástandi) finnst mér ég stundum líta nákvæmlega eins út og þegar ég var yfir 100 kg. Fæ allt í einu þessa tilfinningu að ég hafi ekkert breyst, lít niður á mig og sé sömu stóru lærin og feita magann - er aðeins skárri þegar kemur að speglinum en ekki mikið þó. ÞEgar ég sé ljósmyndir af mér hugsa ég svo "er ég í alvörunni svona mjó" - sama hugsaði ég í denn tid þegar ég hélt að ég væri ekkert svo feit "er ég í alvörunni orðin svona feit".

Ég veit ekki hvað á að kalla þetta en myndin sem ég geymi af sjálfri mér í höfðinu á oftar en ekki lítið skylt við raunveruleikann og oft fer hún bara eftir því hvernig andlegu ástandi ég er í þann daginn.

Marilyn, 16.8.2008 kl. 00:48

15 Smámynd: Jón Aðalsteinn Jónsson

Verðug rannsóknar efni hef oft pæ´lt í þessu

Jón Aðalsteinn Jónsson, 20.8.2008 kl. 22:48

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Hér er ég, hér er ég

Marilyn
Marilyn
... bara allt fínt, en þú?

Nóv. 2024

S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband