Eitt af því sem sagt er fylgja á meðgöngunni eru sinadrættir. Ég hef nú oft fengið svoleiðis og nokkrum sinnum núna á meðgöngunni og þá sérstaklega á nóttunni. Þá virðist vera sama í hvaða átt ég hreyfi á mér fótinn, sinadrátturinn skiptir þá bara um stað, t.d. ef ég teygi úr kálfanum færist sinadrátturinn yfir í vöðvann framan á sköflungnum og allt eftir því. Konur hafa auðvitað háan sársaukaþröskuld og allt það og maður hefur svo sem bara harkað þetta af sér eftir bestu getu og reynt að halda áfram að sofa.
Í nótt tók þó tappann úr, og það þýðir ekki að ég sé dottin íða. Um fimmleytið vaknaði ég við óþægindi í ökklanum sem breyttust í ósköp og skelfingu þegar verkurinn fór úr því að vera venjulegur sinadráttur og yfir í það að vera gríðarlega öflugt krampakast sem ekkert virtist við að gera. Löppina gat ég hvergi hreyft hvernig sem ég reyndi og þegar á leið var ég farin að sprikla eins og óður maður til að reyna að losna við þetta og emja eins og ég veit ekki hvað... og vakti auðvitað bóndann sem vissi ekki hvaðan á sig stóð veðrið og virtist litla björg geta veitt sinni sárkvöldu kærustu. Eftir nokkrar sársaukafullar tilraunir ákvað ég að prófa að standa á fætur og láta þyngdaraflið og gólfið vinna sitt verk en við tók annað krampakast, hálfu verra en það fyrra og löppin á mér krepptist til í einhverja óskiljanlega átt. Ég mátti gjöra svo vel að hanga á karlinum og bara gráta á meðan á þessu stóð en náði á endanum að teygja rétt úr löppinni.
Í dag er eins og eymi eftir af þessu næturævintýri, ökklinn er allur eitthvað skrítinn og svona "kítl" í honum eins og hann langi til að endurtaka leikinn ef hann bara fengi tækifæri til. Á einhver ráð við þessu?
Já kæru vinir, svona er líf mitt æsispennandi þessi misserin. Grindargliðnun og sinadrættir um miðjar nætur, gerist ekki mikið meira intressant. Jú annars - ég var hott í sjónvarpinu í gær og við vorum ánægð með þáttinn. Mikil heppni að forsíðumyndin skyldi verða til í þessum sama þætti sem var ekki sjálfgefið en kom einstaklega vel út. jájá það gerist svo sem fleira en sársauki.
Flokkur: Lífstíll | 31.10.2008 | 11:30 (breytt kl. 11:32) | Facebook
Athugasemdir
já vá hvað ég hata sinadrætti og má ég þá frekar biðja um enga drætti.
En verst er að fá sinadrátt akkurat þegar maður þarf að æla það er bara ekki að ganga upp en samt hefur það tekist.
Hafrún Kr., 31.10.2008 kl. 15:25
jájá - toppaðu bara sársaukann frá í nótt með einhverjum ælusögum!
Marilyn, 31.10.2008 kl. 15:34
en sem betur fer fæ ég bara sinadrátt einstaka sinnum.
Man að mamma dansaði oft regndansa og mikið um fótanudd þegar hún var ólétt af litla bróðir mínum.
Hafrún Kr., 31.10.2008 kl. 15:55
Vona að þér fari nú að líða betur skvís
Ómar Ingi, 31.10.2008 kl. 19:25
steinefnaskortur, sagði einhver, kalk og magnesíum e.t.v. lykillinn
Elín Sigríður Grétarsdóttir, 1.11.2008 kl. 16:35
Vá, hvað ég kannast við þetta ... og nákvæmlega svona!! Mér hefur reynst vel að borða banana kvölds og morgna. Hef ekki fengið krampa núna í nærri viku og trúi þvi bara varla!!
Hugarfluga, 1.11.2008 kl. 17:14
P.s. Gleymdi að segja að sinadráttur tengist gjarnan kínínskorti og það er fullt af kíníni í banönum.
Hugarfluga, 1.11.2008 kl. 17:16
Því miður (upp á þetta að gera) eru bananar á listanum yfir það sem ég læt ekki inn fyrir mínar varir. En ég hlýt að geta fundið kínín á öðrum stöðum.
Marilyn, 3.11.2008 kl. 00:04
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.