Einhverjir halda því fram að loksins séu að koma fram alvöru mótmæli á Íslandi, eggjagrýtingar, bónusfánar og rauð málning séu til marks um það.
Þá fyrst skal ég samþykkja það að íslendingar kunni að mótmæla þegar þeir vita hverju þeir eru að mótmæla, sameinast um það hverju þeir eru að mótmæla, mótmæla á vitrænan og málefnalegan hátt og komi sér saman um bæði stað og stund til að mótmæla á.
Það hefst ekkert upp úr svona skrílslátum nema andúð annarra málefnalegra mótmælenda á þeim sem þau stunda, sem verður til þess að slíkt fólk neitar að koma og mótmæla því það vill ekki láta tengja sig við skríl. Mótmæli verða að hafa markmið, stefnu og tilgang og þau mótmæli sem hafa verið undanfarið einkennast af óskipulagi, stefnuleysi og tilgangsleysi. Þau eiga sér varla upphaf né endi og engin skýr markmið eða kröfur settar fram heldur allir með sitt hvort: "burt með krónuna", "burt með Davíð", "kosningar strax", "búú á auðmennina", "nýja stjórn", "ný lög" ble ble ble. Mótmæli eru ekki dægradvöl fyrir framhaldsskólanema sem nenna ekki að mæta í tíma, við erum að tala um alvöru mál. Ég er ekkert hissa á því að Íslendingar séu reiðir og ég er sjálf orðin þreytt á að fá ekkert að vita... að ekkert gerist... að engar alvöru fréttir berist. Ég ætla samt ekki að láta það bitna á eigum annarra og ekki á mínum eigin eigum (Alþingishúsinu). Tek undir orð Davíðs Þórs í pistli í fréttablaðinu þar sem hann sagði að við ættum ekki að láta reiðina gera okkur að fíflum (í lauslegri endursögn).
Ef við fáum ekki upplýsingar og eigum ekki að leita að sökudólgum þá getum við amk. mótmælt skorti á upplýsingaflæði og svörum frá ráðamönnum, það er það eina sem er á hreinu þessa stundina.
Valhöll í baði | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Lífstíll | 13.11.2008 | 12:57 (breytt kl. 12:58) | Facebook
Athugasemdir
Hef grun um að þetta sé ástæðan fyrir því að margir láta ekki sjá sig í miðbæjarmótmælunum þótt fegnir vildu. Þeir vilja gjarnan mótmæla en kæra sig bara ekki um að vera spyrtir við þennan óþjóðalýð sem vinnur skemmdarverk og hendir eggjum í allar áttir.
HN (IP-tala skráð) 13.11.2008 kl. 13:07
Ég veit ekki hvort þú sért að einfalda hlutina og uppnefna sem skrílslæti til að snúa út úr þeim eða bara vegna einfeldni. Þú virðist allaveganna viljandi horfa framhjá því sem ég segi.
Ég get verið sammála þér í því að ef fólk gengur um og skemmir hluti bara til að skemma hluti þá eru það skrílslæti, en ef það er tilgangur með aðgerðunum, t.d. að vekja athygli á ákveðnum málefnum, þá eru þær ekki skrílslæti heldur mótmælaaðgerðir.
Þú hefur væntanlega aldrei verið viðstödd mótmæla aðgerðir erlendis en þær eru eins og Viðar bendir á mun harkalegri og beinskeyttari en nokkuð sem við sjáum hérlendis, enda er aðhald að stjórnmálamönnum mun meira og þeir látnir víkja fyrir minni sakir er þykja sjálfsagðir hlutir hérna heima.
Ég tek sérstaklega fram að ef þarna er um að ræða skemmdarverk þá eru þau engum til góðs og ættu ekki að eiga sér stað, en málning þvæst auðveldlega af, sama á við um egg og skyr og það má draga fána frá húni jafn auðveldlega og hann var dreginn að. Það að fólk lýsi andúð sinni og mótmæli ætti ekki að fordæma heldur fagna, það að fólk fremji hermdarverk er annað mál.
Icelandic fire sale, 13.11.2008 kl. 14:02
Enda er ég alls ekki á móti því að fólk mótmæli, hef aldrei verið og mun aldrei verða. Það er lýðræðisleg skylda okkar að láta í okkur heyra þegar okkur er misboðið og sannarlega hlýtur okkur að vera misboðið núna eins og komið hefur verið fram við landið okkar og íslensku þjóðina, hvort sem er af erlendum eða íslenskum stjórnmálamönnum.
Ég myndi fagna auknu aðhaldi í stjórnmálum, að menn yrðu látnir segja af sér ef þeir yrðu uppvísir að afglöpum í starfi en hefur það ekki einmitt sýnt sig að "dómstóll götunnar" hefur ekki alltaf rétt fyrir sér og þar sem við höfum ekki allar upplýsingarnar þá vitum við ekki hvern á að "hengja".
Í raun er það eina sem við vitum um þetta ástand það að við vitum ekki neitt.
Spillt Ísland: 1) hvaðan færðu það út að ég sé ekki "fólkið í landinu" - ég vinn mína vinnu og borga húsnæðislán eins og nánast flestir. Ég þarf að kaupa bensín og fæða og klæða mín börn. Ég er "fólkið í landinu" alveg jafn mikið og þú.
2) "í öðrum löndum væri farið að velta bílum og bensínsprengjur farnar að fljúga" - og ég spyr... í hvers þágu er það að eyðileggja eigur annarra. Hvers erum við bættari með því að skemma, brenna og hrækja á það sem samborgarar okkar eiga. Þetta eru skrílslæti af versu sort og þjóna engum tilgangi nema vekja reiði þeirra sem samt eru sammála málstaðnum.
Iceland fire sale: Þegar hlutir eru skemmdir nafnlaust í skjóli nætur kallast það skemmdarverk. Þetta er auðvitað táknrænt, hús málað rautt, litur blóðs, litur uppreisnar, litur elds og hita og reiði. jújú, mjög kjút allt saman. En hverju er verið að mótmæla. Er þetta ALLT sjálfstæðisflokknum að kenna? Er þetta húsinu að kenna, er þetta fólkinu sem vinnur í húsinu að kenna? Er verið að vekja athygli á því að hendur flokksins séu blóði drifnar eða á þetta að vera litur kommúnismans og tengjast óhagganlegri hegðun þeirra sem stjórna. HVAÐ? Og hverjir standa fyrir þessu? Líklega engin ákveðin samtök því íslenskir mótmælendur eru ekkert búnir að þjappa sér saman um hverjum eða hverju eigi eiginlega að mótmæla. Jafnvel bara einhverjir eilífðar unglingar sem fannst kúl að gera "bara eitthvað" án þess að það stæði í neinu samræmi við neitt.
Að þessu sögðu þá vil ég að það komi fram að ég er ákafur stuðningsmaður mótmæla, fagna borgaralegri óhlýðni og styð menn sem þora upp á Alþingishús með bónusfána. En við verðum að vita hverju við erum að mótmæla, við þörfnumst aga í andófinu því annars verður það stefnulaust og grefur undan málstað okkar og málstaður okkar er sannarlega mikilvægur. Pistillinn fjallaði um að við værum ekki búin að læra að almennileg að mótmæla og ég stend við þá skoðun mína: við kunnum ekki rassgat að mótmæla.
Marilyn, 13.11.2008 kl. 15:25
Ef eina leiðinn til að veikja athygli og hrekja burtu ríkistjórnina sem engin vil eru "skríslæti" þá verður að hafa það.
Alexander Kristófer Gústafsson, 13.11.2008 kl. 15:31
Og hver er búinn að rannsaka og staðfesta að það sé eina leiðin? Ég hef hvergi séð slíkar staðhæfingar koma nokkursstaðar fram.
Marilyn, 13.11.2008 kl. 16:43
Ég er fullkomnlega sammála þér í flestu sem þú segir í svari þínu við athugasemdinni sem ég setti hérna inn hjá þér, enda rímar þetta við inntakið í pistlinum mínum þar sem þú settir inn athugasemd upphaflega. En í þinni athugasemd leistu framhjá því að ég var að tala um meira en bara Rauðskvetturnar. Þú segir "Eru aukin skrílslæti og rugl á borð við svona skemmdarverk til marks um það að íslendingar séu að læra að mótmæla?", ég hinsvegar tók sérstaklega fram að "Ef viðkomandi fólk hefur engan tilgang með þessum aðgerðum annan en að skemma Valhöll og valda kostnaði þá geta þau alveg eins sleppt þessu, það hjálpar engum og leggur ekkert til í ástandinu."
Mig grunar að við séum nokkuð sammála um að það að skemma eignir annarra bara til að skemma eignir annarra eru skemmdarverk. Minn pistill gekk út á mig fannst skorta rökstuðning og málefnalega tilburði bak við þessar málningarskvettur. Ef viðkomandi aðilar kæmu seinna í kvöld fram undir nafni og færðu góð málefnaleg rök fyrir sínum aðgerðum og tækju afleiðingum gjörða sinni og myndu um leið vekja athygli á málstað sínum þá held ég að við værum bæði sammála um það að þarna hefðu farið fram mótmæli sem áttu rétt á sér.
Til að svara þér í sambandi við Sjálfstæðisflokkinn þá hefur hann setið í stjórn á meðan á þessu öllu hefur gengið og verður því að viðurkenna að flokksmenn hans hafi haft yfir umsjón með þessu. Hann hefur hinsvegar setið í stjórn með mörgum af hinum flokkunum og þeir allir staðið sig jafn illa og sjálfstæðisflokkurinn. Vinstri grænir hafa reyndar ekki fengið tækifæri til að klúðra sínum málum þannig að ef enginn betri bíður sig fram þá er spurning um að leyfa þeim að spreyta sig.
Icelandic fire sale, 13.11.2008 kl. 18:16
Takk
Ómar Ingi, 13.11.2008 kl. 19:57
Ég kommentaði í raun bara á eitt í þinni færstu IFS:
"Ekki það að ég vilji hvetja til skemmdaverka en atburðir sem þessir og eggja/skyrs/tómat grýtingin á Alþingishúsið ásamt Bónusfánahífingunni sýnir að Íslendingar eru að læra að mótmæla."
Í grunninn var ég þér samt alveg sammála. Og ég held að íslendingar séu almennt frekar sammála um að kreppan er slæm, að ráðamenn séu að klúðra, að krónan sér veik, að betri reglur þurfi um fjármálamarkaðinn, að upplýsingaflæði sé of lítið, að of mikið sé um spillingu í skipun embætta, að einhverjir eigi að segja af sér, að við þurfum að fá að vita hvað varð um alla þessa peninga osfrv. osfrv. osfrv.
Það sem við virðumst hins vegar ekki geta komið okkur saman um er hvar og hvenær eigi að mótmæla og hverju eigi að mótmæla og það stafar held ég bæði af því að við fáum engar almennilegar upplýsingar og að hluta til vegna þess að við kunnum ekki að mótmæla (eða kannski vegna þess að okkur vantar almennilegan fyrirliða í mótmælunum).
Ommi: það var lítið ;)
Marilyn, 13.11.2008 kl. 20:53
Heyr heyr :o)
Kristborg Ingibergsdóttir, 13.11.2008 kl. 23:02
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.