Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2008
Já - það er farþegi um borð í jarðarbúningnum mínum. Ég er í mannrækt.
Það er svolítið skrítið held ég fyrir ofætu að borða fyrir tvo. Venjuleg viðbrögð væru (og voru síðast) "jess, nú má ég vera feit í friði og ég þarf að borða mikið, enginn getur sagt neitt" - og mikið borðaði ég. Ég borðaði fyrir tvo, en það var fyrir tvo fullorðna karlmenn sem stunduðu líkamsrækt og unnu líkamlega erfiða vinnu - ekki konu í yfirþyngd og ófætt ungabarn.
Í dag er að borða fyrir tvo bara skynsamlegt mataræði, vigtað eftir mínum grunnþörfum plús öllu sem bætist við þegar maður er með farþega, sem er alls konar, en ekki samt á við það að maður sé með fullvaxinn karlmann inni í sér - ég þarf ekki amk. að borða fyrir hann þegar þannig stendur á ;) Að borða fyrir tvo þýðir bara að ég sé að gera ráð fyrir því að ég þarf aðeins meiri orku akkúrat núna og uppfylla þá þörf - en ekki meira en það. Ég kvíði næstum því fyrir því að þetta verði búið og að ég þurfi aftur að fara að borða fyrir einn. En ég er bara á viku 16 enn sem komið er, þetta er ekkert alveg að verða búið.
Lífstíll | 30.7.2008 | 00:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
Í dag eru liðin tvö ár síðan ég lagði frá mér deyfilyfin mín. Þetta er bæði það auðveldasta og erfiðasta sem ég hef þurft að gera í lífinu. Það er ekki auðvelt að leggja margra ára gamlar og vandlega þróaðar hugmyndir um lífið og tilveruna á hilluna og fá eitthvað alveg nýtt í staðinn sem stundum hlýðir engum rökum, það bara er. Jafnframt var þetta auðvelt því þetta var svo mikill léttir, að þurfa ekki stanslaust að halda grímunni gagnvart öllum og um leið að halda öllum þessum boltum á lofti og þykjast vera með öll svörin. Að viðurkenna fíknina á sínum tíma var svona gott-vont en í dag er það bara gott.
Ég hélt alltaf að eina vandamálið væri að ég borðaði of mikið - og í raun var þetta vandamál skapað af samfélaginu sem sagði að allir ættu að vera grannir, svo það var í rauninni samfélaginu (aka öllum öðrum en mér) að kenna hvernig fyrir mér var komið og að mér skyldi líða illa að vera svona feit. Þetta var aldeilis ekki vandamálið! Vandamálið var að ég er fíkill og það er alvega sama hvað gengur á, ég leita í mat eða áfengi í staðinn fyrir að takast á við vandamálin mín.
Ég væri ekki á þessum tímamótum nema fyrir tilstilli æðri máttar sem ég komst í kynni við í gegnum sporavinnu sem ég hefði ekki farið í nema fyrir sponsor sem ég hefði aldrei kynnst ef ég hefði ekki farið í fráhald sem ég hefði aldrei uppgötvað nema fyrir engilinn minn sem fór á undan mér. Kraftaverkin í lífi mínu eru ótrúleg og allt vegna þess að guð var að vinna í gegnum fólk til að bænheyra mig og færa mér lausnina.
2 ár án þessara efna þýða að ég hef þurft að takast á við það sem kemur upp í stað þess að deyfa mig frá því.
2 ár án efnanna þýðir 2 ár sem ég hef fengið að þroskast í stað þess að standa í stað og kenna bara öðrum um allt.
2 ár án efnanna þýðir 2 ár sem ég hef verið þátttakandi í lífinu.
2 ár án efnanna eru algjört kraftaverk því miðað við allt annað sem ég hef reynt hefði ég bara átt að ná 2 dögum í mesta lagi. Munurinn var sá að viljastyrkur kom þessu ekkert við í þetta skiptið heldur varð ég að sleppa tökunum á því sem ég hélt að ég vissi og leyfa einhverju öðru að stjórna mér. Þá gekk þetta upp og mun halda áfram að ganga upp svo lengi sem ég tek ábyrgð á og viðheld batanum og gef áfram það sem mér hefur hlotnast. Þannig held ég líka áfram að þroskast.
Lífstíll | 24.7.2008 | 23:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Já kvöldmaturinn er planaður þannig að ég er búin að forsjóða svínarif í BBQ-kryddi, vatni og salti og er að gera tilraunir með BBQ-sósu eftir lítillega breyttri uppskrift frá vini mínum Wulfenstein. So far so good og lyktin er dásamleg! Stefni á að borða BBQ-rif í fyrsta skipti í 2 ár eftir T minus 45 minutes.
Þess má til gamans geta að BBQ-rif voru einmitt það sem ég borðaði fyrir fyrsta fundinn minn. Ég var að kveðja þau því ég vissi að svoleiðis mat fengi ég aldrei aftur. Ég var svo óheppin að fá ekki sponsor á fundinum og ég var næstum því farin að gráta því ég vissi að afgangurinn af rifjunum beið mín heima og að ég myndi borða þau þrátt fyrir að vera komin með ógeð. Sem ég og gerði, bæði í miðnætursnarl og morgunmat daginn eftir!!!
En nú get ég heilsað upp á vini mína svínarifin aftur og samt verið í fráhaldi. Uppskriftin (ef hún heppnast) mun verða birt ykkur til yndisauka innan tíðar - og grillaðar rófur með.
UPPFÆRT: Vávávávává - það má segja að ég hafi öðlast andlega vakningu við að borða þessi rif. Þau voru svoooo góð og mér til armæðu sá ég að það er mun meira kjöt á rifjunum en ég hafði talið mér trú um. Þegar ég borðaði BBQ-rif í denn hef ég s.s. borða 2-3 manna skammt og þess vegna fannst mér ég fá frekar lítið kjöt núna! En VÁ þetta var bara geðveikt. Það eina sem ég hugsaði eftir að ég var búin að borða var "í hvern á ég að hringja og deila þessari reynslu með" - reyndi þrjár ofætur en engin þeirra svaraði.
Ég á afgang af sósunni og ætla að gera mér aftur svona í næstu viku - þetta var algjörlega truflað og vinur minn Wulfenstein (aka. Úlfar Finnbjörnsson) á mikið hrós skilið fyrir að gefa mér uppskriftina (sem ég þurfti auðvitað að gera "gráa") og góð ráð við eldamennskuna. I would like to thank the akademy... - ég er viss um að ég fæ óskarinn fyrir þessi rif!
Lífstíll | 16.7.2008 | 18:39 (breytt kl. 22:39) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
Lífstíll | 13.7.2008 | 12:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
Ég ætla ekki að halda því fram að ég sé fróð um hvalveiðar, hvalveiðistofninn, veiðarfæri hvalveiðibáta eða hversu hratt blessuð skepnan deyr eftir að búið er að skutla hana. Spurningin mín er hins vegar þessi (í framhaldi af fréttinni um hvalaskoðunarbátinn sem elti hvalveiðibátinn) ... hvaðan kemur þessi krafa að hvalveiðar eigi að vera mannúðlegar og hver dæmir um það hvað er mannúð og hvað ekki.
Nú skal það koma strax fram að ég er fylgjandi hvalveiðum svo lengi sem það er markaður fyrir kjötið. Mér er líka umhugað um réttindi dýra og að þau séu ekki pyntuð eða misnotuð. Veiðar finnst mér falla í allt annan flokk.
Það er nákvæmlega ekkert mannúðlegt við það að drepa aðrar skepnur og því skil ég ekki tilgang hvalaverndunarsinna að taka myndband af því hvað þetta er ómannúðlegt. Ég skil heldur ekki af hverju hvalveiðimenn vilja endilega halda því fram að veiðarnar séu mannúðlegar og að hvalirnir drepist hratt. Er það ekki frekar gefið að veiðar eru ómannúðlegar? Spyr einhver þorskinn hve hann þjáist þegar hann er halaður upp úr sjónum? Er einhver sem athugar hversu vel skotið hittir hreindýrið og að það deyi nú örugglegar samstundis? Veiðar eru í eðli sínu ómannúðlegar, við þurfum ekki myndband til að sanna það og það skiptir ekki máli hversu hratt skepnan deyr. Hins vegar efast ég um að nokkur stundi veiðar í þeim tilgangi að pynta dýrin og láta þau þjást (nema sjúkir einstaklingar en um þá er ekki verið að ræða hér). Veiðimenn eru að ná í kjöt og því hraðar sem skepnan deyr því minna stressast hún og því betra verður kjötið, það er enginn leikur að bráðinni nema kannski spennan sem fylgir því að finna hana og ná skotinu. Ef veiðimaðurinn hittir dýrið ekki beint í hjartastað (eða heila) þá er það ekki vegna þess að honum þykir svo gaman að sjá dýrið þjást heldur vegna þess að hann hitti ekki betur. Hittni þykir mikill kostur á meðal veiðimanna einmitt vegna þess að þeir vilja ekki draga dauðastundina á langinn.
Að halda því fram að út af þessu séu veiðar mannúðlegar eða reyna að sanna að þær séu það ekki þykir mér samt algjör óþarfi. Dráp eru ekki mannúðleg, að svipta einhvern lífinu er ekki mannúðlegt. Það er samt alltaf reynt að koma í veg fyrir óþarfa þjáningar, stundum tekst það og stundum tekst það ekki. Markmið veiðimannsins er það sem skiptir máli - er hann að veiða til að pynta dýrið inn í dauðann eða er hann að veiða til að afla sér og sínum viðurværis (og þá erum við ekki bara að tala um kjöt í matinn heldur að fá borgað fyrir veiðina o.s.frv.). Skiptir hvalur hér meira máli en kýr með fjóra fætur?
ESB: Hvalveiðar þvælast fyrir | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Lífstíll | 10.7.2008 | 14:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Mér finnst Ísland vera rosalega næs þegar sólin skín svona og ég er í fríi fyrir hádegi.
Mússóinn er auðvitað löngu seldur, nýji eigandinn svo æstur að hann ætlaði varla að prófa hann, bara kaupa. Og það á réttu verði sem þýðir að nú þarf mamma að splæsa í ný gleraugu handa mér. Það var díllinn sem hún gerði við "bílasölu Guðrúnar".
Kallinn minn var að gefa mér ný föt, fengum smá kast í Debenhams og keyptum meðal annars æðislega grænan jakka á 70% afslætti, hann er meeega flottur og ég verð mega skutla í honum. Myndir koma kannski síðar.
Að auki er ég að panta mér svolítið af ljósmyndagræjum á amazon sem vinkona okkar ætlar að koma með hingað á skerið. Þrífót og ljósdreifara á fína flassið mitt. Það ætti að bæta útimyndir í myrki töluvert. Langar rosalega í fullt af dóti en ég held að það sé best að ég læri á vélina fyrst!
Lífstíll | 9.7.2008 | 14:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Langaði þig ekki alltaf til að eignast jeppa? Og í miðju krepputalinu birtist hann. Forláta Musso til sölu, kostar aðeins meira en eina tölu en þar sem hann eyðir nánast engu er það engin fyrirstaða.
Þessi bíll er af gerðinni SsangYong Musso og var framleiddur á meðan Bens var enn inn í þeirri jöfnu. Hann var nýskráður árið 1998 og er keyrður um 153 þúsund kílómetra en þar sem hann var búsettur úti á landi og eigendurnir ferðafólk er mikið af þessu góðir kílómetra. Var ég búin að nefna þessa fínu, reyklausu eigendur sem hafa átt bílinn frá því að hann kom á götuna? Bíllinn hefur fengið gott viðhald frá eigendum og svo er tengdasonur þeirra líka biffélavirki.
Fóðra þarf öll 79 hestöflin með dísel-eldsneyti en hann er mjög sparneytinn og vegur aðeins 1915 kg. Hann er 5 manna, 5 dyra og 5 gíra og með fjórhjóladrif. Undir honum eru 4 heilsársdekk.
Ásett verð á bílasölu er 350.000 en ef þið kaupið hann í gegnum mig fáið þið betri díl.
Aukahlutir & búnaður ABS hemlar - Armpúði - Álfelgur - Dráttarbeisli - Dráttarkúla - Pluss áklæði - Rafdrifin sæti - Rafdrifnar rúður - Rafdrifnir speglar - Reyklaust ökutæki - Samlæsingar - Smurbók - Þjónustubók - hefur fengið gott viðhald einn eigandi |
Lífstíll | 2.7.2008 | 19:05 (breytt kl. 19:06) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
Í allan morgun dreymdi mig Angelinu Jolie, Brad Pitt og Jennifer Aniston... og reyndar einhvern einn gaur í viðbót sem var greinilega ekki nógu frægur til að ég geti munað hvað hann heitir. Ég held að þetta hafi sprottið upp úr því að ég sá Beowulf auglýsinguna í gærkvöldi. Draumurinn snérist svo um það að Jennifer Aniston var að leika í mjög lesbísku atriði á móti Jolie í myndinni og við vorum öll að hugsa hvað það væri heppilegt að myndin væri tölvuteiknuð því annars þyrftu þær að gera þetta í alvörunni.
Svo voru Brad og Angie eitthvað ósátt og ég var að passa krakkana þeirra... meira ruglið. Fékk rosaknús frá þeim báðum undir lok draumsins og svo keypti Brad handa mér hús. Bíð spennt eftir því að draumurinn rætist.
Lífstíll | 1.7.2008 | 11:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)