Færsluflokkur: Lífstíll

Að borða til að lifa

Ég hef verið í þessum sporum - of "mjó" til að fara í aðgerð og of feit til að líða vel í eigin skinni. Og reyndar leið mér aldrei vel því jafnvel þegar ég var grönn sem unglingur fannst mér eins og ég passaði aldrei inn neins staðar, ég var öðruvísi en hinir, hugsaði annað, hafði öðruvísi samvisku, öðruvísi viðmið og leit öðruvísi út (þetta fannst mér jafnvel þegar ég gat gengið í gallabuxum nr. 29 og magabol, þá u.þ.b. 15-16 ára). Enginn ætti að láta sig dreyma um að ég hafi þá ætlað mér að verða þunglynd, feit, einangruð og óhamingjusöm kona. Ég var þessi hressa, djammarinn, brandarastelpan og þekkti fullt af skemmtilegu fólki. Þetta gerðist bara og samt gerðist þetta ekki bara, fæstir verða feitir af því að borða eins og venjulegt fólk, eins og þeir þurfa á að halda og svo ekki meira. Málið er bara að ég er fíkill - ég er fíkill í sterkju og sykur, hveiti og ger og ég er líka fíkill í magn, mér finnst gott að borða mikið af því sem bragðast vel, en ef ég læt ákveðnar fæðutegundir inn fyrir mínar varir þá verð ég fyrir þeim óeðlilegu viðbrögðum að langa stöðugt í meira og ég get t.d. ekki fengið mér einn mola úr skrjáfpoka nema hugsa umsvifalaust um hvenær ég geti réttlætt það að fá mér annan (þ.e.a.s. ef einhver er nálægur - annars fylgir bara hver á eftir öðrum hugsunarlaust þar til pokinn er tómur eða mér orðið óglatt, jafnvel þá hætti ég ekki). Þetta er vandamál sem ég hefði kannski á einhverjum tímapunkti getað stoppað en þá var það ekki farið að valda mér skaða og ég vildi ekki hætta. Það var ekki fyrr en það var orðið of seint að ég áttaði mig á að það var eitthvað verulega mikið að - reyndar var það ekki fyrr en ég fann lausnina að ég áttaði mig á því hvað var að. 

Það kom ekkert sérstakt fyrir mig í æsku, foreldar mínir eru enn hamingjusamlega giftir, báðir eiga þeir mörg systkini sem eru öll í góðu sambandi og hittast reglulega þannig að ég á mjög stóra og samheldna fjölskyldu. Við vorum hvorki rík né fátæk, ég var ekki ofdekruð þó ég fengi allt sem ég þurfti og stundum meira til, og mér gekk vel í námi og átti góðan vinahóp. Auðvitað gekk á einhverju drama, stundum vildu þessir ekki leika við mig eða mér var sagt að ég væri með of mikla stæla enda lék ég oftast trúðinn því mér fannst ég svo asnaleg. Ég skildi samt aldrei afhverju  mér fannst ég svona asnaleg, eftir á að hyggja var ég ekkert svo asnalega nema einmitt afþví að ég var að reyna að fela hvað mér fannst ég asnaleg. Ég byrjaði að drekka um 14 ára gömul en framan af gat ég vel skemmt mér án áfengis. Ég hef eiginlega bara átt einn alvöru kærasta og ég kynntist honum þegar ég var 19 ára. Hann hefur aldrei beitt mig ofbeldi og við höfum ekki verið í neinum "haltu mér slepptu mér" leik, hann hefur bara verið yndislega góður við mig og ég veit stundum ekki hvað ég hef gert til að eiga slíkan mann skilið.

Þegar ég var 25 ára var ég búin að vera með unnusta mínum, sem var þá sjómaður, í 6 ár, við áttum 2 ára gamla dóttur og ég var að deyja úr óhamingju þrátt fyrir að eiga allt til alls. Ég gat ekki tekið til heima hjá mér þrátt fyrir að sinna skólanum lítið sem ekkert og geyma barnið á leikskóla eins lengi og boðið var upp á. Ég var stanslaust að leita leiða til að ná tökum á ofátsvandamálinu mínu, ég gat ekki stillt mig, fór alltaf í einhvern "fokk it" gír þegar ég gafst upp og sagði "skítt með það - eitt kíló enn sést varla á mér fyrst svona er komið fyrir mér". Ef ég fékk mér sælgæti gat ég ekki hætt fyrr en mér lá við uppköstum eða allt kláraðist og ég beitti ýmsum brögðum til að koma í veg fyrir að matur og sælgæti kláruðust áður en ég væri búin að fá minn skerf. Ég sendi stelpuna mína stundum fyrr í háttinn svo ég gæti pantað mér mat eða notið þess sem ég keypti í búðinni fyrr um daginn. Stundum sat ég í sófanum og borðaði fram á nótt og oft langaði mig til að þróa með mér bulimíu - óskaði þess að ég gæti smitast af annað hvort bulimiu eða anorexíu til að geta bara borðað og verið mjó á sama tíma eða haft viljastyrk til þess að svelta mig. Ég þoldi að sjálfsögðu ekki þetta ástand og á hverju kvöldi eftir ofát fór ég að sofa full af fögrum fyrirheitum (og orku) um að á morgun myndi ég sleppa þessu, á morgun myndi ég ekki kaupa nammi eða panta pítsu, á morgun myndi ég fara í ræktina og borða bara kjúkling og grænmeti. Og ég virkilega meinti það - ég þráði að fá kraftinn í mig til að framkvæma þessa hluti, þráði að losna út úr þessari þjáningu sem felst í því að þurfa að borða til að sleppa við að finna fyrir tilfinningum á borð við einsemd, leiða, reiði, gremju og satt að segja kunni ég ekki einu sinni að höndla gleði eða óvænt tíðindi og tók öllu með frekar óeðlilegu "jafnaðargeði" - ég stærði mig líka af því að vera ekki langrækin og geta fyrirgefið allt en það var jú einmitt vegna þess að ég var ófær um að muna tilfinningar í langan tíma heldur gróf ég þær undir fjalli af mat og sætindum. Þessum ofátsköstum fjölgjaði bara stöðugt og styttra varð á milli þeirra. 

Ég hélt að það eina sem væri að mér væri hvað ég væri feit og löt og mikill aumingi. SAmt sem áður eyddi ég gríðarlegum tíma og fjármunum í að leita að lausninni, lesa um nýjar megrunaraðferðir, fara til einkaþjálfara og vera í ræktinni, prófa atkins eða einhverja útgáfu af því, líkama fyrir lífið og að lokum danska kúrinn. Mig dreymdi um að fá einhvers konar leyfi til að vera feit (frá samfélaginu) og ég gældi líka við þá hugmynd að fita mig upp í aðgerðina, ég reyndi líka einu sinni að framkalla uppköst en bara gat ekki stigið það skref. Ég gæti sagt venjulegri manneskju sem hefur bara misst tökin stundarkorn á neyslunni hvernig á að fara að því að léttast og halda sér formi og ég veit líklega álíka mikið um brennslu, vöðvaþjálfun og mataræði og sæmilegur einkaþjálfari eftir að hafa lesið margar slíkar greinar, horft á þætti og lesið bækur og jafnvel farið í áfanga í næringarfræði. Ég veit þetta allt en vegna þess að flestir kúrar og flest prógrömm innihalda matartegundir sem valda mér fíkn í einhverju magni þá eru vopnin samstundis slegin úr höndunum á mér og á endanum læt ég undan því sem líkaminn kallar á... og það versta er að ég hef ekki hugmynd um það afhverju. Löglegir nammidagar hófust á föstudagskvöldum og enda á sunnudagseftirmiðdögum ef þeir voru innifaldir í mataræðinu. Stundum náðu þeir fram á mánudaga ef það voru miklir afgangar. Svo hófst aftur baráttan við að halda sig að mataræði sem ég hataði og olli mér fíkn um leið. 

 

Árið 2006 var ég úrkula vonar um að mér tækist þetta, ég var eiginlega hætt að reyna því mér misstókst alltaf allt. Ég þráði svo heitt að verða mjó, þráði að hætta að borða svona, þráði að ná tökum á þessari undarlegu áráttu að vera alltaf að leita í sukkmat. Unnustinn var orðinn þreyttur á að horfa upp á mig og það var ekki bara afþví að ég var svo feit heldur líka vegna þess að ég var að deyja úr óhamingju sem ég taldi vera þunglyndi en ómeðhöndluð fíkn minnir nefnilega um margt á þunglyndi og henni getur jafnvel svipað til fleiri geðsjúkdóma en lausnin er ekki fólgin í lyfjum heldur fráhaldi frá fíknvaldinum og andlegri vinnu. Vinkona mín var búin að ná góðum árangri í 12 sporasamtökum fyrir matarfíkla en fyrr skyldi ég dauð liggja en að viðurkenna að ég gæti ekki stjórnað eigin lífi og fara í eitthvað matarfangelsi þar sem maður mátti ekki borða brauð og pasta og ekki drekka áfengi. Ég sem átti íbúð, var í háskólanámi, átti bíl og mann og barn og fullt af peningum - ég borðaði bara aðeins of mikið, var aðeins of feit og það var það eina sem var að, þurfti bara að passa mig. Á endanum samþykkti ég samt að fara með henni á fund og það sem ég heyrði þar var ekki ósvipaði sögunni sem fór hér á undan. Stanslaus þráhyggja í mat, hvað átti að borða næst, hvað var maður búinn að borða mikið, hvað var til,  löngun í frið til að borða hömlulaust, át í felum, geta ekki hætt að hugsa um sælgæti sem er til uppi í skáp og bíða þar til gestirnir fara til að geta fengið sér og þurfa ekki að deila. Að vera í veislu og telja ferðirnar hjá hinum til að geta ákveðið sjálfur hvenær er eðlilegt að fara aðra ferð - eða borða lítið sem ekkert í veislum og háma svo í sig þegar heim er komið þar sem enginn sá til. Það hlýtur hver sem er að sjá að þetta er ekki eðlileg hegðun gagnvart mat, það er ekki eðlilegt að geta ekki ákvarðað hversu mikið er of mikið, það er ekki eðlilegt að geta ekki hætt að hugsa um nammið í skálinni þegar maður ætti að vera að spjalla við vini sína, það er ekki eðlilegt að borða fullan haldapoka af sælgæti á einu kvöldi einn af því að manni leiðist svo og það er ekki eðlilegt að líða alltaf illa.

Ég var svo heppin að finna lausn innan 12 spora samtaka sem takast á við fíknina í ákveðnar matartegundir og líka fíknina í magnið því ef ég hefði ekki vigt til að stjórna magninu ofan í mig myndi ég bara troða mig út af því sem er í lagi, t.d. kjöti eða ákveðnum grænmetistegundum. Ég tók út fæðutegundirnar sem valda mér fíkn og fór að vinna með sponsor að því að borða jafnt og eðlilega og samkvæmt prógramminu sem mér var gefið á hverjum degi. Þetta losaði mig við u.þ.b. 35 kg af fjötrum á tæpu ári. En vandamálið var ekki hvað ég var feit og vandamálið var ekki hvað allir hinir voru ósanngjarnir við mig, vandamálið var mér sjálfri að kenna og sponsorinn og 12 sporin hjálpuðu mér að sjá að ef ég sætti mig ekki við heiminn eins og hann er og hætti að reyna að breyta honum eftir mínu höfði þá næði ég aldrei bata frá ofátinu. Ég hélt nefnilega að allir hinir þyrftu að breytast, að matarframleiðendur þyrftu að hætta að framleiða matinn sem ég ræð ekki við að borða, að allir þyrftu að skilja matarfíkn og að allir þyrftu að komast í 12 sporasamtök til að ég yrði hamingjusöm. Allir hinir voru fífl og ég var sú eina (ásamt nokkrum útvöldum) sem hafði rétt fyrir mér. Þetta var sem betur fer ekki svona því ef allir þurfa að breytast nema ég á ég ekki séns - ég get engum breytt nema sjálfri mér og ég fékk aðstoð til að sjá hvar ég hafði haft rangt fyrir mér og hvernig ég ætti að beyta sjálfri mér í mínum daglegu málum. 

 

Sumir halda því fram að feita fólkið sem vill kalla fituna sína sjúkdóm séu í raun bara að varpa vandanum á einhverja greiningu í staðinn fyrir að sjá að offitan sé því sjálfu að kenna. Það er nefnilega akkúrat öfugt í 12 spora samtökum. Fitan sem sest oftar en ekki utan á matarfíkla er afleiðing en ekki orsök. Við gætum sogað hverja einustu fituörðu af matarfíkli og hann myndi hiklaust halda áfram að borða hömlulaust. Matarfíkn er sjúkdómur sem hægt er að halda í skefjum á sama hátt og áfengisfíkn - með því að sleppa þeim matartegundum sem innihalda fíknvaldandi efni (t.d. sykur, hveiti og ger) og vinna sporin 12 með trúnaðarmanni. Ef þetta er ekki sjúkdómur er ekkert hægt að gera - ef þetta er bara aumingjaskapur þá er ekkert til að ná bata frá. Sjúkdómur er eitthvað sem sjúklingur getur leitað lausnar frá. Svo heppilega vill til að nokkur samtök eru til sem hjálpa fólki að takast á við matarfíkn og átraskanir, t.d. GSA, OA og ABA. Það gefur auga leið að ef þeir sem þjást af sjúkdómi leita sér hvorki lausnar né fylgja leiðbeiningum lækna þá verður enginn bati. Krabbameinssjúklingur sem nennir ekki að taka lyfin sín eða mæta í lyfjameðferðir getur ekki átt mikla batavon. Á sama hátt verða matarfíklar að fylgja leiðbeiningum og taka ábyrgð á sínum sjúkdóm. Að kalla matarfíkn sjúkdóm er ekki firring frá ábyrgð eða leið hinna feitu til að kenna einhverjum öðrum um hvernig komið er fyrir þeim heldur staðreynd sem leiðir til þess að hægt sé að takast á við ástandið og bera ábyrgð á því. Það besta er að þessi lausn kostar ekki neitt og batinn sem næst miðast við það sem hver og einn leggur í hann. Komist einhver að þeirri niðurstöðu að þessi lausn henti honum ekki getur hann snúið aftur á veg fíknarinnar og uppfyllt þessar hvatir því maginn er enn heill. 

Sumir segja að matarfíklar séu verr staddir en alkar því alkar geti hætt að drekka en það sé ekki hægt að hætta að borða. Alkar hætta ekkert að drekka - þeir drekka vatn, gos, safa og fullt af drykkjum, þeir sleppa bara þeim drykkjum sem innihalda alkohól - flestir sleppa þeir líka mat og sælgæti sem inniheldur alkohól. Matarfíkillinn hættir heldur ekki að borða - hann hættir að borða matartegundir sem innihalda þau efni sem valda honum fíkn. Ég veit það eitt að ég gæti aldrei lifað á dufti og fyrir mér þýðir 5% magi bara 5% líf því ég hef verið í þeirri stöðu að langa til að borða en ekki getað það og mér leið hræðilega og leið andlegar kvalir vegna þessara mótsagnakenndu langana. Ég er fegin að hafa ekki fallið fyrir þeirri ranghugmynd að magaaðgerð sé eina lausnin sem getur gert mig mjóa og gefið mér betra líf. Líffærin mín eru ósködduð eftir ofátið ef frá eru talin slit á húð. Ég get tekist á við öll vandamál daglegs lífs sem áður komu mér á kné - hversu stór eða smávægileg sem þau eru. Ég get átt í samskiptum við foreldra mína en áður sleppti ég því stundum að svara í símann þegar ég sá númerið þeirra. Ég fæ ekki kvíðakast þegar síminn hringir og ég er frjáls frá því að velta því stanslaust fyrir mér hvað annað fólk er að hugsa um mig. 

Það besta er að ég er frjáls frá matarfíkn. Ég hef öðlast góðan bata og fengið áður óþekktan kraft inn í mitt líf. Ég þurfti ekki að fá hann til að geta byrjað á þessu - ég fékk hann afþví að ég játaði að ég gat ekki staðið í þessu sjálf. Allar mínar aðferðir og allt sem ég hafði reynt hafði brugðist því ég treysti alltaf á sjálfa mig, ég trúði á Guð en lék hann samt alltaf sjálf í mínu lífi - ég komst hins vegar að því að ég er eigingjörn og óheiðarleg, ekki bara við aðra heldur líka sjálfa mig, og algjörlega ófær um að stjórna nokkrum hlut í mínu lífi. Æðri máttur samkvæmt mínum skilningi á honum er kominn í staðinn og hefur nú þegar tekist miklu betur upp en mér.

Ég hef haldið mig algjörlega frá sykri, hveiti, sterkju, geri og áfengi í 2 ár. Ég er búin að vera í kjörþyngd í meira en 1 1/2 ár - vigtin fer varla upp og varla niður og fötin mín passa enn þá eftir 3 mánuði. Ég hef öðlast lífsfyllingu og hamingju sem ég hélt að væri ekki hægt að finna fyrir og hún hefur ekkert með fatastærðina mína að gera heldur andlegt ástand mitt og þá nýju sýn sem ég hef fengið á lífið með hjálp sporanna 12.  

 gudda feitafacesmall


mbl.is Metaðsókn í offitumeðferð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kaupóða konan

Þær eru ekki ófáar vikurnar sem ég hef verið að böggast yfir að eiga engin föt sem passa (nú þarf maður auðvitað eitthvað sérsniðið óléttudót a.m.k. ef maður ætlar að ganga í buxum) og líka að eiga ekkert $%"#$"#$ síróp til að setja í hveitikímið. Ég átti einar ótrúlega þægilega hvítar óléttubuxur en ég þvoði þær með hvítum þvotti á 40% og einhver svartur leðurmiði sem var áfastur buxunum litaði smitaði bláum lit út frá sér. Skítt að skella einhverju svona dökku drasli á skjannahvít föt! Jæja dagurinn í gær og dagurinn í dag voru dagarnir sem ég drullaðist loksins til að gera eitthvað í málunum. 

Ég fór loksins til að kvarta yfir buxunum í dag og það voru ekki til aðrar eins eða neinar jafn ódýrar sem mig langaði í þannig að ég endaði með fjólubláan hlýrabol. Fjólublár er THE litur núna ef þið skylduð ekki hafa tekið eftir því... enda var því komið til leiðar í dag að forsíða næsta Gestgjafa er fjólublá og ótrúlega töff. Jæja einn bolur dugir mér nú ekki því mig vantar buxur, alveg komin með ógeð á sokkabuxum og leggings-dæminu sem ég er alltaf í. Fann fínar gráar gallabuxur í Zöru á 1800 kall og keypti svo síða hneppta peysu sem var reyndar ekki á útsölu en alveg þess virði að ég keypti hana samt. Nú er ég mega hott með bumbuna í steingráum buxum, ljósgrárri peysu og fjólubláum hlýrabol undir. Buddurnar sem vinna með mér segja að ég sé eins og B - reyndar sögðu þær fyrst að ég væri eins og Þ en ég leiðrétti þær, ég er allt annað en flatbrjósta þessa dagana. 

 

Svo var það hitt sem var að bögga mig. Það er skortur á sykurlausu sírópi frá Da Vinci í kaffitár, þessar örfáu tegundir sem þeir fá eru ekkert spes nema vanillan sem er alltaf uppseld. Í gær tók ég mig loksins til að pantaði heilan helling af sírópi - svona um það bil 24 flöskur takk fyrir og þar af 6 með vanillubragði. Ég þoli ekkert verr en að geta ekki fengið að borða það sem ég vil, eins og t.d. þegar hveitikímið eða sykurlausa sýrópið er uppselt á landinu. Nú ætti ég að hafa komið í veg fyrir það a.m.k. næsta hálfa árið ef ekki lengur. Hlakka til að smakka djús úr sykurlausu appelsínusírópi eða búa jafnvel til frostpinna úr sykurlausu sítrónusírópi, jammí. Svo datt ég í lukkupottinn í smáralindinni í dag því í Kaffitárinu þar voru einmitt til 2 flöskur af vanillusírópi sem ættu að duga mér þar til sendingin mín lendir á dyrapallinum hjá mér. Hæ hó ég hlakka til!

Svona er þetta víst þegar maður loksins drattast til að gera eitthvað í því sem er að bögga mann ... böggið leysist allajafna eða maður fær á hreint hvenær það mun leysast og getur andað rólega þangað til. 


Borða fyrir tvo

Já - það er farþegi um borð í jarðarbúningnum mínum. Ég er í mannrækt.

Það er svolítið skrítið held ég fyrir ofætu að borða fyrir tvo. Venjuleg viðbrögð væru (og voru síðast) "jess, nú má ég vera feit í friði og ég þarf að borða mikið, enginn getur sagt neitt" - og mikið borðaði ég. Ég borðaði fyrir tvo, en það var fyrir tvo fullorðna karlmenn sem stunduðu líkamsrækt og unnu líkamlega erfiða vinnu - ekki konu í yfirþyngd og ófætt ungabarn.

Í dag er að borða fyrir tvo bara skynsamlegt mataræði, vigtað eftir mínum grunnþörfum plús öllu sem bætist við þegar maður er með farþega, sem er alls konar, en ekki samt á við það að maður sé með fullvaxinn karlmann inni í sér - ég þarf ekki amk. að borða fyrir hann þegar þannig stendur á ;)  Að borða fyrir tvo þýðir bara að ég sé að gera ráð fyrir því að ég þarf aðeins meiri orku akkúrat núna og uppfylla þá þörf - en ekki meira en það. Ég kvíði næstum því fyrir því að þetta verði búið og að ég þurfi aftur að fara að borða fyrir einn. En ég er bara á viku 16 enn sem komið er, þetta er ekkert alveg að verða búið.


2 ár á sykurs, hveitis og áfengis

Í dag eru liðin tvö ár síðan ég lagði frá mér deyfilyfin mín. Þetta er bæði það auðveldasta og erfiðasta sem ég hef þurft að gera í lífinu. Það er ekki auðvelt að leggja margra ára gamlar og vandlega þróaðar hugmyndir um lífið og tilveruna á hilluna og fá eitthvað alveg nýtt í staðinn sem stundum hlýðir engum rökum, það bara er. Jafnframt var þetta auðvelt því þetta var svo mikill léttir, að þurfa ekki stanslaust að halda grímunni gagnvart öllum og um leið að halda öllum þessum boltum á lofti og þykjast vera með öll svörin. Að viðurkenna fíknina á sínum tíma var svona gott-vont en í dag er það bara gott. 

Ég hélt alltaf að eina vandamálið væri að ég borðaði of mikið - og í raun var þetta vandamál skapað af samfélaginu sem sagði að allir ættu að vera grannir, svo það var í rauninni samfélaginu (aka öllum öðrum en mér) að kenna hvernig fyrir mér var komið og að mér skyldi líða illa að vera svona feit. Þetta var aldeilis ekki vandamálið! Vandamálið var að ég er fíkill og það er alvega sama hvað gengur á, ég leita í mat eða áfengi í staðinn fyrir að takast á við vandamálin mín. 

Ég væri ekki á þessum tímamótum nema fyrir tilstilli æðri máttar sem ég komst í kynni við í gegnum sporavinnu sem ég hefði ekki farið í nema fyrir sponsor sem ég hefði aldrei kynnst ef ég hefði ekki farið í fráhald sem ég hefði aldrei uppgötvað nema fyrir engilinn minn sem fór á undan mér. Kraftaverkin í lífi mínu eru ótrúleg og allt vegna þess að guð var að vinna í gegnum fólk til að bænheyra mig og færa mér lausnina.  

2 ár án þessara efna þýða að ég hef þurft að takast á við það sem kemur upp í stað þess að deyfa mig frá því.

2 ár án efnanna þýðir 2 ár sem ég hef fengið að þroskast í stað þess að standa í stað og kenna bara öðrum um allt.

2 ár án efnanna þýðir 2 ár sem ég hef verið þátttakandi í lífinu.

2 ár án efnanna eru algjört kraftaverk því miðað við allt annað sem ég hef reynt hefði ég bara átt að ná 2 dögum í mesta lagi. Munurinn var sá að viljastyrkur kom þessu ekkert við í þetta skiptið heldur varð ég að sleppa tökunum á því sem ég hélt að ég vissi og leyfa einhverju öðru að stjórna mér. Þá gekk þetta upp og mun halda áfram að ganga upp svo lengi sem ég tek ábyrgð á og viðheld batanum og gef áfram það sem mér hefur hlotnast. Þannig held ég líka áfram að þroskast. 


Juicy BBQ-ribs baby!

bbq-ribsJá kvöldmaturinn er planaður þannig að ég er búin að forsjóða svínarif í BBQ-kryddi, vatni og salti og er að gera tilraunir með BBQ-sósu eftir lítillega breyttri uppskrift frá vini mínum Wulfenstein. So far so good og lyktin er dásamleg! Stefni á að borða BBQ-rif í fyrsta skipti í 2 ár eftir T minus 45 minutes.

Þess má til gamans geta að BBQ-rif voru einmitt það sem ég borðaði fyrir fyrsta fundinn minn. Ég var að kveðja þau því ég vissi að svoleiðis mat fengi ég aldrei aftur. Ég var svo óheppin að fá ekki sponsor á fundinum og ég var næstum því farin að gráta því ég vissi að afgangurinn af rifjunum beið mín heima og að ég myndi borða þau þrátt fyrir að vera komin með ógeð. Sem ég og gerði, bæði í miðnætursnarl og morgunmat daginn eftir!!!

En nú get ég heilsað upp á vini mína svínarifin aftur og samt verið í fráhaldi. Uppskriftin (ef hún heppnast) mun verða birt ykkur til yndisauka innan tíðar - og grillaðar rófur með.

 

 

 

UPPFÆRT:  Vávávávává - það má segja að ég hafi öðlast andlega vakningu við að borða þessi rif. Þau voru svoooo góð og mér til armæðu sá ég að það er mun meira kjöt á rifjunum en ég hafði talið mér trú um. Þegar ég borðaði BBQ-rif í denn hef ég s.s. borða 2-3 manna skammt og þess vegna fannst mér ég fá frekar lítið kjöt núna! En VÁ þetta var bara geðveikt. Það eina sem ég hugsaði eftir að ég var búin að borða var "í hvern á ég að hringja og deila þessari reynslu með" - reyndi þrjár ofætur en engin þeirra svaraði.

Ég á afgang af sósunni og ætla að gera mér aftur svona í næstu viku - þetta var algjörlega truflað og vinur minn Wulfenstein (aka. Úlfar Finnbjörnsson) á mikið hrós skilið fyrir að gefa mér uppskriftina (sem ég þurfti auðvitað að gera "gráa") og góð ráð við eldamennskuna. I would like to thank the akademy... - ég er viss um að ég fæ óskarinn fyrir þessi rif!


Barnlaus helgi hjá gömlu hjónunum

Já við gömlu hjónin (reyndar skötuhjú) erum barnlaus um helgin því afkvæmið fór norður að heimsækja hin gömlu hjónin (ömmu og afa). Alla helgina erum við búin að láta eins og við séum bara barnlaust par í miðbænum og ímynda okkur hvað fólk sem á ekki börn gerir um helgar. Við erum reyndar engu nær... Við erum búin að fara aðeins á útsölur, elda góðan mat og borða saman og fara á rúntinn. Þetta var allt mjög skemmtilegt og indælt en einhvern vegin grunar mig að barnlaus pör séu að gera eitthvað allt annað. Ég ímynda mér að þau séu aktívari einhvern veginn en kannski eru þau öll bara draugtimbruð uppi í rúmi, kannski hanga þau með vinum sínum í stað þess að hanga með hvort öðru. Kannski eru þau bara að horfa á vídjó allan daginn og panta sjoppumat. Kannski stóðum við hjónin okkur bara ágætlega í því að vera barnlaust par þessa helgi.

Að veiða nornir eða hvali?

Ég ætla ekki að halda því fram að ég sé fróð um hvalveiðar, hvalveiðistofninn, veiðarfæri hvalveiðibáta eða hversu hratt blessuð skepnan deyr eftir að  búið er að skutla hana. Spurningin mín er hins vegar þessi (í framhaldi af fréttinni um hvalaskoðunarbátinn sem elti hvalveiðibátinn) ... hvaðan kemur þessi krafa að hvalveiðar eigi að vera mannúðlegar og hver dæmir um það hvað er mannúð og hvað ekki. 

Nú skal það koma strax fram að ég er fylgjandi hvalveiðum svo lengi sem það er markaður fyrir kjötið. Mér er líka umhugað um réttindi dýra og að þau séu ekki pyntuð eða misnotuð. Veiðar finnst mér falla í allt annan flokk.

Það er nákvæmlega ekkert mannúðlegt við það að drepa aðrar skepnur og því skil ég ekki tilgang hvalaverndunarsinna að taka myndband af því hvað þetta er ómannúðlegt. Ég skil heldur ekki af hverju hvalveiðimenn vilja endilega halda því fram að veiðarnar séu mannúðlegar og að hvalirnir drepist hratt. Er það ekki frekar gefið að veiðar eru ómannúðlegar? Spyr einhver þorskinn hve hann þjáist þegar hann er halaður upp úr sjónum? Er einhver sem athugar hversu vel skotið hittir hreindýrið og að það deyi nú örugglegar samstundis? Veiðar eru í eðli sínu ómannúðlegar, við þurfum ekki myndband til að sanna það og það skiptir ekki máli hversu hratt skepnan deyr. Hins vegar efast ég um að nokkur stundi veiðar í þeim tilgangi að pynta dýrin og láta þau þjást (nema sjúkir einstaklingar en um þá er ekki verið að ræða hér). Veiðimenn eru að ná í kjöt og því hraðar sem skepnan deyr því minna stressast hún og því betra verður kjötið, það er enginn leikur að bráðinni nema kannski spennan sem fylgir því að finna hana og ná skotinu. Ef veiðimaðurinn hittir dýrið ekki beint í hjartastað (eða heila) þá er það ekki vegna þess að honum þykir svo gaman að sjá dýrið þjást heldur vegna þess að hann hitti ekki betur. Hittni þykir mikill kostur á meðal veiðimanna einmitt vegna þess að þeir vilja ekki draga dauðastundina á langinn. 

Að halda því fram að út af þessu séu veiðar mannúðlegar eða reyna að sanna að þær séu það ekki þykir mér samt algjör óþarfi. Dráp eru ekki mannúðleg, að svipta einhvern lífinu er ekki mannúðlegt. Það er samt alltaf reynt að koma í veg fyrir óþarfa þjáningar, stundum tekst það og stundum tekst það ekki. Markmið veiðimannsins er það sem skiptir máli - er hann að veiða til að pynta dýrið inn í dauðann eða er hann að veiða til að afla sér og sínum viðurværis (og þá erum við ekki bara að tala um kjöt í matinn heldur að fá borgað fyrir veiðina o.s.frv.). Skiptir hvalur hér meira máli en kýr með fjóra fætur?


mbl.is ESB: Hvalveiðar þvælast fyrir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsland

Mér finnst Ísland vera rosalega næs þegar sólin skín svona og ég er í fríi fyrir hádegi.

Mússóinn er auðvitað löngu seldur, nýji eigandinn svo æstur að hann ætlaði varla að prófa hann, bara kaupa. Og það á réttu verði sem þýðir að nú þarf mamma að splæsa í ný gleraugu handa mér. Það var díllinn sem hún gerði við "bílasölu Guðrúnar".

Kallinn minn var að gefa mér ný föt, fengum smá kast í Debenhams og keyptum meðal annars æðislega grænan jakka á 70% afslætti, hann er meeega flottur og ég verð mega skutla í honum. Myndir koma kannski síðar.

Að auki er ég að panta mér svolítið af ljósmyndagræjum á amazon sem vinkona okkar ætlar að koma með hingað á skerið. Þrífót og ljósdreifara á fína flassið mitt. Það ætti að bæta útimyndir í myrki töluvert. Langar rosalega í fullt af dóti en ég held að það sé best að ég læri á vélina fyrst! 


Má bjóða þér jeppa?

Langaði þig ekki alltaf til að eignast jeppa? Og í miðju krepputalinu birtist hann. Forláta Musso til sölu, kostar aðeins meira en eina tölu en þar sem hann eyðir nánast engu er það engin fyrirstaða.

Þessi bíll er af gerðinni SsangYong Musso og var framleiddur á meðan Bens var enn inn í þeirri jöfnu. Hann var nýskráður árið 1998 og er keyrður um 153 þúsund kílómetra en þar sem hann var búsettur úti á landi og eigendurnir ferðafólk er mikið af þessu góðir kílómetra. Var ég búin að nefna þessa fínu, reyklausu eigendur sem hafa átt bílinn frá því að hann kom á götuna? Bíllinn hefur fengið gott viðhald frá eigendum og svo er tengdasonur þeirra líka biffélavirki. 

Fóðra þarf öll 79 hestöflin með dísel-eldsneyti en hann er mjög sparneytinn og vegur aðeins 1915 kg. Hann er 5 manna, 5 dyra og 5 gíra og með fjórhjóladrif. Undir honum eru 4 heilsársdekk.

IMG_1203Ásett verð á bílasölu er 350.000 en ef þið kaupið hann í gegnum mig fáið þið betri díl.

 

    
    
   
    
    
Aukahlutir & búnaður
ABS hemlar - Armpúði - Álfelgur - Dráttarbeisli - Dráttarkúla - Pluss áklæði - Rafdrifin sæti - Rafdrifnar rúður - Rafdrifnir speglar - Reyklaust ökutæki - Samlæsingar - Smurbók - Þjónustubók - hefur fengið gott viðhald einn eigandi

 


Brangelina

brangelinaÍ allan  morgun dreymdi mig Angelinu Jolie, Brad Pitt og Jennifer Aniston... og reyndar einhvern einn gaur í viðbót sem var greinilega ekki nógu frægur til að ég geti munað hvað hann heitir. Ég held að þetta hafi sprottið upp úr því að ég sá Beowulf auglýsinguna í gærkvöldi. Draumurinn snérist svo um það að Jennifer Aniston var að leika í mjög lesbísku atriði á móti Jolie í myndinni og við vorum öll að hugsa hvað það væri heppilegt að myndin væri tölvuteiknuð því annars þyrftu þær að gera þetta í alvörunni.

Svo voru Brad og Angie eitthvað ósátt og ég var að passa krakkana þeirra... meira ruglið. Fékk rosaknús frá þeim báðum undir lok draumsins og svo keypti Brad handa mér hús. Bíð spennt eftir því að draumurinn rætist.

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Hér er ég, hér er ég

Marilyn
Marilyn
... bara allt fínt, en þú?

Nóv. 2024

S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband