Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2008
og nei ég ætla sko ekki að blogga um löggur, óeirðir, óskipulögð mótmæli (les: skrílslæti) og vörubílsstjóra.
Eftir matinn í kvöld stóð dóttir mín (5 ára) allt í einu upp, eftir að við kallinn höfðum verið að grínast eitthvað með gasgrill, og segir "GAS - GAS". Við kallinn litum hálfhlæjandi hvert á annað og spurðum "hver kenndi þér að segja þetta?" Svarið var einfalt "sko við vorum í löggubófa á leikskólanum og ég og Guðbjörg vorum bófar og Hjördís (5-6 ára) var löggan og elti okkur og kallaði GAS GAS GAS".
Fimm ára gömul leikskólabörn eru s.s. búin að læra það núna að löggan segir Gas Gas Gas.
Nú skal syngj'um löggur
sem þola ekkert þras
þær eiga'ð vernda lögin
og nota til þess gas
lög lög lög lög löööööööög
Gas gas gas
gasgasgasgasgas
o.s.frv.
*Það skal tekið fram að þessi færsla er hlutlaus í umræðunni löggur vs. mótmælendur.
Lífstíll | 29.4.2008 | 23:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
Það er temmilegt að gera í vinnunni og ekki leiðinlegt en samt er dagurinn endalaust lengi að líða því mér er eitthvað illt í maganum og sybbin og stressuð og get ekki beðið eftir að komast heim. Klukkan er td. bara hálf fjögur núna en ætti skv. mér að vera að nálgast fimm eða sex.
Lífstíll | 29.4.2008 | 15:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Ég man þegar ég var á fyrstu vikunni í fráhaldi og labbaði inn í Kringluna. Ég var ennþá rosalega mikið í því að lesa hugsanir allra í kringum mig á þeim tíma og var viss um að allir sem litu á mig hugsuðu "Oj bara, hvað er hún að gera svona feit í Kringluna??" en afþví að ég var byrjuð í fráhaldi, þó ekki væri farið af mér eitt einasta kíló, þá gat ég borið höfuðið hátt og hugsað "hei - ég er þó allavega í fráhaldi, ég er að gera eitthvað sem ég veit að virkar!" og á þeirru stundu hefði ég þess vegna getað verið í kjörþyngd því ég varð svo sjálfsörugg af því einu að vera í fráhaldi. Það er svo rosalega stór partur af þyngdinni/fitunni í hausnum á mér.
Í dag fæ ég annað slagið svona köst þar sem mér finnst ég vera risavaxinn í kringum annað fólk, sérstaklega ef það er mjög fíngert fólk. Þá held ég allt í einu að ég sé ekki í kjörþyngd og að ég ætti að reyna að verða jafn mjó og 18 ára, smábeinótt stelpa sem hefur aldrei átt börn. Það er s.s. mjög auðvelt að rugla mig þegar kemur að líkamsímynd, líklega afþví að ég plataði sjálfa mig í mörg ár að holdafarið mitt væri í eðlilegt.
Lífstíll | 27.4.2008 | 05:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
Það er löngu kominn tími á nýja færslu en ég hef bara ekki viljað láta minningargreinina um Laikuna mína detta niður. Elska að horfa á myndirnar af henni og langar að nota tækifærið og þakka öllum fyrir fallegu kveðjurnar, mér þykir mjög vænt um þær.
Ég eyddi sumardeginum fyrsta í nánast ekki neitt. Það er sjaldan sem maður getur sagt að maður hafi gert ekkert, yfirleitt hefur maður hangið í tölvunni, horft á sjónvarpið, sofið, farið í heimsókn eða lesið blöðin þegar maður segist hafa gert ekkert en ég gerði ekkert af þessu. Ég lét plata mig í að vera aukaleikari í sjónvarpsauglýsingu í dag og var á "settinu" frá 10 í morgun til 20:30 í dag. Lærði mjög skemmtilegt kvikmyndatöku-lingó eins og t.d. "hár í geitinu", "tékka á geitinu", "aksjón", "sami bissniss", "flagg" og margt fleira skemmtilegt. En þar sem ég er eiginlega bara "mannleg uppfylling" í auglýsingunni þá fór mikill hluti af þessum rúmu 10 klukkutímum í það að sitja og bíða og gera ekkert.
Ég leik samt mun stærra hlutverk í auglýsingunni en tökuliðið grunar því enginn virtist fatta að vikublaðið sem aðalleikkonan heldur á í einu atriðinu er með mynd af mér utan á. Það var mjög fyndið og skemmtilegt að standa nálægt fólki sem var að lesa um mig og benda á myndir af mér þegar ég var feit og fatta ekki að ég sat svona 3 metra í burtu og ég var ekkert að vekja athygli á því.
Nú bíður mín vigtaður og mældur kvöldmatur því auðvitað, þrátt fyrir að hafa ekkert gert í dag, borðaði ég tvær vigtaðar og mældar máltíðir og ætla nú að fara að slátra þeirri þriðju.
Gleðilegt sumar!
Lífstíll | 24.4.2008 | 21:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Í dag fékk Laika mín loksins að deyja. Fann það frá því að ég vaknaði að stundin var að renna upp og kveið henni þó ég vissi að þetta væri það eina rétta. Þó ég vissi upp á hár að dagurinn í dag væri dagurinn var ég samt með svolítinn kvíða og ekki undirbúin og það var hræðilega erfitt að sleppa tökunum á líkamanum hennar og labba út af dýraspítalanum með engan hund.
Laika kom í heiminn þann 10. ágúst 1994 sem þýðir að hún hefði orðið 14 ára í sumar. Hún bjó fyrstu 10 ár ævi sinnar á Ólafsfirði hjá manni sem elskaði hana alveg ótrúlega mikið. Leiðir okkar lágu saman þegar ég vann í Gæludýraverslun Akureyrar fyrir rétt tæpum fjórum árum síðan. Eigandi hennar kom inn í búðina, spurði hvort við vissum um einhvern sem vildi taka að sér golden retriever-tík og ég sagði já án þess að spyrja manninn minn, foreldra mína (sem ég dvaldist hjá fyrir norðan) og nágranna mína fyrir sunnan. Ég sagði bara já því svona hund vildi ég eiga. Ekki vissi ég þá að ég var um það bil að fá þann blíðasta, gáfaðasta og besta hund sem til hefur verið.
Þó hún væri orðin næstum 10 ára gömul þegar ég fékk hana var hún samt eins og hvolpur; prakkari sem átti það til að stinga af og skoða bæinn, alltaf til í að togast á og mikill mathákur ef réttar fæðutegundir voru í boði.
Hún elskaði vatn og grjót og þegar þessi tvö efni komu saman þótti henni skemmtilegast. Að kafa eftir grjóti var hennar sérgrein og þá skipti engu máli hvað grjótið var stórt, hún gat borið það með sér ótrúlegar vegalengdir.
Laika var mjög mannelsk og fannst ekkert skemmtilegra en að fá gesti í heimsókn. Þar sem þeir sátu við borðstofuborðið eða í sófanum kom hún til þeirra og ýtti undir hendina á þeim með höfðinu til að segja "klappaðu mér" og hún gafst ekki svo auðveldlega upp.
Farvel elsku besta Laika mín. Mér þykir leitt að hafa ekki alltaf veitt þér þá athygli sem þú áttir skilið og ég sakna þín. Ég veit að þér líður betur á nýja staðnum og ég vona að afi taki þig með í útreiðartúr.
voff voff grrrrr rrrrrrr voff
Lífstíll | 19.4.2008 | 03:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
Nei ég er sko ekki búin á því eftir framtakssemi sunnudagsins. Kallinn minn er bara alltaf að læra með tölvuna fram á kvöld og mikið að gera í vinnunni hjá mér svo ég sleppi öllum pistlum.
Það sem helst liggur á mér núna er yfirvofandi dauði hundsins míns en við erum núna búin að nánast horfa á hana hrörna dag frá degi í 3 vikur og nú er komið að því að við ætlum að hjálpa henni að deyja ef það gerist ekki af sjálfu sér fyrir föstudag. Það er átakanlegt að horfa á hana skjögrandi úti í garði að reyna að gera þarfir sínar eða þegar hún liggur og starir döprum augum út í loftið. Hún dettur eða veltur út af því hún heldur ekki jafnvægi, hún leitar alltaf til vinstri, er máttlaus, getur ekki gengið stigana, ekki staðið upp sjálf, er hætt að næra sig og getur varla drukkið vatn því hún er svo jafnvægislaus, það lekur stanslaust úr augunum á henni og hún á meira að segja í erfiðleikum með að leggjast niður. Hún reyndi eitthvað aðeins að borða í gær en líkaminn hennar mótmælti og hún ældi allt út í staðinn. Ég er svo algjörlega máttlaus þegar kemur að lífshlaupi þessa hunds og ég get ekkert gert fyrir hana nema rétt að reyna að gera henni lífið bærilegt síðustu dagana.
Ég vissi jú alltaf að ég fengi ekki að eiga hana lengi því hún var 10 ára þegar ég tók hana að mér en hún hefur einhvern vegin alltaf látið eins og hvolpur sama hvað bjátar á og að sjá hana eldast á þessum leifturhraða er frekar erfitt. 13 1/2 ár eru mjög hár aldur fyrir hund og ég er sátt við að leyfa henni að fara þó ég eigi eftir að skæla úr mér augun þegar stundin kemur.
Lífstíll | 16.4.2008 | 13:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Fólk er mjög oft að hrósa mér fyrir það hvað ég er dugleg af því að ég er í fráhaldi og mæti alltaf með nesti í vinnuna og vigta og mæli og geri engar undantekningar. Ég segi bara takk og brosi en fyrir mér er þetta jafn mikilvægt og að anda og enginn segir að ég sé dugleg þegar ég geri það. Það játast svo hér og nú að ég er allt annað en dugleg og stundum er ég að rembast við það upp úr miðnætti að klambra saman nestinu mínu af því að ég nennti því ekki fyrr um kvöldið og oftast er það einhver easy-kássa sem auðvelt er að henda í dall.
En í dag rann loksins upp dagurinn sem ég hef svo lengi beðið eftir. Dagurinn sem ég var dugleg og vann í haginn fyrir sjálfa mig. Hann er sko búinn að eiga sér langan aðdraganda og ég er búin að hugsa um þetta rosalega lengi en ég lét verða að því... ég eldaði mat fyrir nánast alla næstu viku!!!
Vaknaði í morgun og borðaði ótrúlega góðan vigtaðan og mældan ís með kanileplum og svo instant-kaffi. Horfði á nokkra þætti af Friends (afþví að ég var í fríi) og svo hófst ég handa. Ég bakaði 6 hveitikímspizzubotna og setti í frystinn, frá föstudeginum á ég steikt grænmeti ofan á tvo þeirra. Ég eldaði kjúklingabringur og skar þær niður í bita og setti í loftþétt box. Ég saxaði niður og steikti í kássu helling af grænmeti í indverskri tikka masala-kryddblöndu og setti í box. Ég saxaði niður, sauð og steikti tvo poka af gulrótum til að setja í beikonsalatið mitt. Ég á sem sagt easy-nesti og kvöldmat fyrir alla næstu viku og get því notað tímann minn eftir vinnu í afslappelsi, þrif (ekki veitir af) og lestur góðra bóka.
Á meðan allt þetta gekk á fór ég út með tíkina (sem er næstum 20 mín. prósess í hvert skipti), þreif á henni lappirnar því hún ældi yfir þær, þreif dýnuna hennar og setti í þvottavélina (æla), skutlaði karlinum í skólann, heimsótti tengdó, setti óhrein handklæði í vélina, lék við dótturina á meðan ég eldaði kvöldmatinn og í kvöld vaskaði ég upp alla óhreinu pottana, útbjó nesti (sem var auðvelt) og setti í uppþvottavéla OG setti hana af stað. Nú er klukkan að verða miðnætti en ekki hálf tvö eins og svo oft þegar ég er að fara að sofa. Ég er ánægð með daginn sem var þægileg samblanda af hvíld og framtakssemi. Mest er ég samt ánægð með að hafa loksins gert það sem mig langaði alltaf að gera - að undirbúa matinn minn á sunnudegi til að geta átt aðeins auðveldari stundir eftir vinnu þegar ég er ekki alveg jafn fersk.
Þetta er mér mögulegt að gera í dag!
Lífstíll | 13.4.2008 | 23:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Það er svo vel hugsað um mig þessa dagana og það er sko enginn mannlegur máttur sem er að sjá um það (og ekki misskilja, ég er alveg elskuð heima fyrir þetta er bara af allt öðrum toga).
Ég keypti eldhúsvigt af konu um daginn, ekki af því að ég þurfti nýja vigt heldur af því að mig langaði í betri vigt en ég átti. Ég lagði pening inn á hana en sagði henni að mér lægi svo sem ekkert á að fá vigtina, ég ætti aðra og bla bla. 2-3 dögum seinna bilaði vigtin mín þegar ég var að vigta morgunmatinn. "Sjitt" hugsaði ég en mundi þá samstundis að ég var búin að kaupa og borga fyrir nýja vigt og gæti því bara sótt hana seinnipartinn. "vá," hugsaði ég með mér, "það er sannarlega einhver að hugsa fyrir mig núna," en lítið vissi ég hvað planið var miklu stærra en bara ég og nýja vigtin mín.
Svo skutlaðist ég í Hafnarfjörðinn eftir vinnu en upphaflega planið var að láta þessa konu færa mér vigtina, hitta hana á fundi eða bara með hvaða ráðum sem er, sleppa við að keyra í Hafnarfjörð. Þangað var ég nú samt mætt, hitti konuna og þakkaði fyrir og eins og lög gera ráð fyrir fórum við aðeins að spjalla. Við eigum báðar gamlar golden retriever tíkur sem bárust í tal og ég sagði henni hvað tíkin mín er búin að vera mikið lasin, getur varla gengið, hvað hún stynur mikið og ýlfrar og líður illa og konan átti ráð og veitt mér það fúslega. Ég fór heim og gaf hundinum magnyl (sem hundar mega víst fá) og ég sá stutta seinna hvernig tíkin slaaaaakaði á og gat loksins sofið, og þá meina ég sofið! Frá bilaðri vigt til hunds sem ekki er lengur í stanslausri þjáningu - þetta er plan sem ég bý ekki til sjálf.
Svo mætti ég loksins á fund á þriðjudaginn og ekki nóg með að ég væri beðin um að leiða (ok ég bauð mig reyndar fram) heldur fékk ég þrjár sponsíur - planið í mínum haus var á þá leið að ég hefði ekkert að segja og að það yrðu engin nýliðar á fundinum og ég var næstum því farin að gráta af gleði á leiðinni heim af þessum fundi ég var svo fegin að hafa ekki hlustað á sjálfa mig.
Svipað gerðist í gærkvöldi, ég ætlaði ekki að bjóða mig fram til að hjálpa neinum "nei ég er með þrjár nýjar... bla bla bla" og svo allt í einu var höndin á mér komin upp þegar kallað var eftir sporasponsorum, og ég hugsaði "já hvahh.. það er örugglega enginn að leita að sporasponsor," þegar ég fattaði að höndin hefði rokið upp en viti menn, ég var nú samt beðin.
Ég bý ekki til svona plön, lífið er allt öðruvísi þegar ég stjórna og ákveð hvað mun gerast og hvaða þýðingu hlutirnir hafa. Og ég finn það svo sterkt hvernig ég er leidd áfram á hverjum degi, sérstaklega núna þegar fráhaldið í heild er komið í fyrsta sæti aftur en ekki aukavinnan (les. peningagræðgi). Og mikið er það góð tilfinning. Ég er strax orðin rólegri, glaðari, ástríkari og einbeittari en þegar ég var að ana áfram og reyna að skrapa saman tíma til að vinna aukavinnu með fullri vinnu og heimili. Ég verð að setja batann minn í fyrsta sæti, það er svo engan veginn nóg að vigta bara og mæla matinn, ég verð að næra mig andlega, líkamlega og félagslega.
Lífstíll | 11.4.2008 | 09:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Ég hlustaði aldrei á NKOTB, var kannski aðeins of ung, og mér finnst þessi mynd af þeim ansi hallærisleg. Það hefur samt ekki komið í veg fyrir það að núna þegar fréttir af endurkomu þeirra hafa verið í algleymingi á Netinu hef ég velt hökunni á þessum þarna næst-lengst til vinstri alveg ótrúlega mikið fyrir mér, svo mikið reyndar að mig dreymdi hann um daginn og það engann venjulegan draum!
Ég var stödd á óræðum stað með einhverjum manni sem var að kynna fyrir mér starfssemi einhverrar stofnunar sem hafði það að markmiði að útskýra fyrir almenningi að HIV/AIDS smitaðist ekki með munnvatni. Hann kynnti mig fyrir "gaurnum með hökuna" sem reyndist vera með AIDS (ekki HIV) og bauð mér að fara í sleik við hann. Ég þverneitaði auðvitað og sagðist ekki kyssa aðra en kallinn minn þó vissulega væri vel boðið. Við spjölluðum svo alveg heillengi saman og hökugaurinn var í einhverjum voða egómínus og fannst hann ömurlegur og ég var að reyna að peppa hann upp því þetta reyndist allra vænsti gaur. Til að gera langa sögu stutta þá endaði með því að við fórum í sleik en ekki vegna neins ástarbríma, ó nei, við vorum að reyna að sleppa undan bófum!! Og það kom í ljós að hökugaurinn var með klofna tungu!
Þeir eru nú svolítið sætari núna finnst mér en hökugaurinn er enn þá með skrítna höku. Finnst hafa ræst best úr þessum dökkhærða næst lengst til vinstri á þessari mynd.
New Kids on the Block snúa aftur | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Lífstíll | 8.4.2008 | 15:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Ég sótti dóttur mína í leikskólann á föstudaginn og afþví að veðrið var svo gott voru allir krakkarnir enn þá úti, þ.e.a.s. þeir sem átti enn eftir að sækja. Ég var í gallabuxum og síðri röndóttri peysu með glimmerþráðum í sem elskuleg vinkona mín gaf mér í jólagjöf. Eitt spurulasta stúlkubarn norðan Mississippi kemur til mín og spyr "ertu að fara í veislu?", ég neita en hún gefst ekki upp "afhverju ertu þá svona fín?" - "ég var nú bara í vinnunni" segi ég þá en dóttir mín grípur fram í og segir hátt og skírt "ÞAÐ ER VEGNA ÞESS AÐ MAMMA MÍN ER GELLA!". Ég dó næstum og leikskólakennararnir skellihlógu, ég vissi ekki að dóttur minni fyndist ég vera gella, reyndar sagði hún svo í bílnum á eftir að pabbi sinn væri líka gella.
En dóttir mín er snillingur og ég er svo sannarlega gella!
Fór í þrítugsafmæli til vinkonu minnar á föstudagskvöldið í flegnasta kjól heimsins. Við vorum allar stelpurnar í einhverju gellustuði og langaði til að vera sætastar svo við fórum á Players þar sem nóg er úrvalið af fullum köllum til að segja okkur hvað við erum æðislegar. Rosalega var það gaman þó ég verði að viðurkenna að fullir, íslenskir karlmenn séu oft á tíðum ákaflega sorgleg dýrategund. Og ég verð að mæla með hljómsveitinni Bermúda sem hélt uppi stuðinu. Söngkonan Erna er bara frábær, falleg og yndisleg, hún söng eins og engill og var ótrúlega hress. Algjörlega frábært kvöld ef frá er talið svolítið vinkonudrama (fastir liðir eins og venjulega) sem tengdist mér þó ekki neitt en smitaði aðeins út frá sér.
Lífstíll | 7.4.2008 | 10:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)